Sennilega verður bið á því að við Íslendingar fáum tækifæri til að nota þjónustu hins merkilega fyrirtækis Uber sem á ótrúlega skömmum tíma er búið að snarbreyta leigubílabransanum í þeim borgum þar sem þjónusta þeirra er í boði. En hvur þremillinn er Uber?

Þjónusta Uber er í boði í flestum borgum Bandaríkjanna og allnokkrum borgum Evrópu líka. Mynd Joakim Formo
Þjónusta Uber er í boði í flestum borgum Bandaríkjanna og allnokkrum borgum Evrópu líka. Mynd Joakim Formo

Uber er leigubílaþjónusta með nýju sniði og þrátt fyrir mikil og áköf mótmæli leigubílstjóra og hagsmunasamtaka þeirra víða um heim virðast öll púsl detta með Uber. Nýlega gáfu bresk yfirvöld sitt leyfi á þjónustuna og margra daga mótmæli höfðu ekkert að segja.

Til að nota Uber í þeim borgum þar sem þjónustan er í boði þarf tvennt til. Snjallsíma sem náð getur í sérstakt Uber app og kreditkort til að setja upp reikning.

Að því loknu þurfa notendur einungis að opna umrætt app hvenær sem þeir þurfa á bíl að halda og panta. Á korti sést alltaf hversu margir bílar eru í boði á umræddu svæði og því auðvelt að skoða hvort panta þarf með fyrirvara eður ei.

Fimm mismunandi þjónustur eru í boði á flestum stöðum. A) Svartur bíll (Black car) sem tryggir fjögurra sæta bíl af betri tegund. B) Leigubíl (taxi) sem er hefðbundinn leigubíll með samning við Uber. C) UberX (UberX) er lággjaldaþjónustan en þá er send venjuleg fjögurra manna bifreið sem getur verið í ýmsu ásigkomulagi. D) Stór bíll (Suv) merkir stærri bifreið og gjarnan með fjögurra hjóla drifi og E) Lúxus (Lux) sem eru vitaskuld lúxusbifreiðar.

Allar fimm týpur eiga að vera til reiðu handa viðskiptavinum 24 stundir 365 daga ársins þar sem þjónustan er í boði. Eftir að týpan hefur verið valin nægir að setja inn áfangastaðinn og svo bíða róleg. Appið sýnir næsta bílstjóra og einnig hversu langt er í hann. Einnig fylgir farsímanúmer á viðkomandi bílstjóra ef eitthvað sérstakt er. Greiðsla fer svo fram gegnum appið og ekki þarf að greiða né gefa bílstjórum þjórfé.

Spyrja má hvernig þessi þjónusta er betri eða merkilegri en hefðbundin leigubílaþjónusta og svarið liggur í kostnaði. Í flestum borgum er verðlagning á ódýrustu bílunum töluvert undir verði leigubíla en það er mjög misjafnt borga og landa á milli. Heildarkostnaður sést alltaf í appinu.

Óhætt er að mæla með við fólk í ferðahugleiðingum að fylgjast vel með fregnum af Uber. Skammt er síðan fyrirtækið tók til starfa í London og bauð þá best 6.600 krónur milli Heathrow og miðborgar London. Það var þá lægra verð en almennt með leigubílum en í kjölfarið hafa leigubílastöðvar lækkað verð og bjóða nú sumar enn betra verð. Hvort það verður raunin áfram verður að koma í ljós.