Það verður að segjast að nafnið er ekki mjög sexí. Fremur þurrkuntulegt heiti sem einhver nefnd í Strassborg hefur fengið vel greitt fyrir að hamra saman: Menningarborg Evrópu.

Pólska miðaldaborgin Wroclaw er menningarborg Evrópu 2016 ásamt San Sebastian. Mynd Ifo
Pólska miðaldaborgin Wroclaw er menningarborg Evrópu 2016 ásamt San Sebastian. Mynd Ifo

Ekki missa þó móðinn þó nafnið bendi meira til að þetta sé elítusamkoma fólks sem á meiri fjármuni og meiri frítíma en velflest venjulegt fólk. Það að vissu leyti rétt ágiskun en raunin er að margar þær borgir sem valdar hafa verið sem sérstakar menningarborgir bjóða upp á sitt allra fínasta púss og það fyrir háa sem lága.

Lesendur hafa eflaust heyrt talað um viðburðinn. Ekki síst vegna þess á árið 2000 var Reykjavík ein þeirra borga sem þann titil hlaut. Enginn man eftir neinu sérstöku það árið í höfuðborginni og það hefur verið helsti ljóður á sumum þeirra borga sem titilinn hafa. Of lítið verið gert af því tilefni.

Þetta hefur færst mjög til betri vegar og það má þakka að nafnið er að brenna sig dýpra og dýpra inn í meðvitund fólks en ekki síður vegna þess að túrismi er miklu hærra skrifaður í velflestum vestrænum löndum í dag en raunin var fyrir fimmtán, tuttugu árum.

Margir Íslendingar þekkja og elska Árósa. Hún er menningarborg Evrópu 2017.
Margir Íslendingar þekkja og elska Árósa. Hún er menningarborg Evrópu 2017.

Gróflega má segja að borg sem valin er menningarborg fær drjúgan styrk frá Evrópusambandinu til að kynna og koma á framfæri því sem borgin og landið hefur sérstakt upp á að bjóða. Það þarf ekki endilega að vera menning en yfirleitt er vel gert úr því hlutverki þó sumar borgir hafi svindlað á prófinu og kallað til alþjóðlega listamenn til að peppa upp hátíðina. Annar galli sá að borgir þurfa að sækja um að koma til greina. Þetta er sem sagt samkeppni og slíkt á mjög lítið skylt við menningu.

Að þessu sögðu getur ritstjórn fullum hálsi mælt með „Menningarborg“ ef fólki langar að prófa eitthvað nýtt. Nánast undantekningarlaust nú til dags merkir þetta að miklu fleiri viðburðir eru haldnir bæði úti og inni og allt árið um kring meðan borgir skartar titlinum. Þar á meðal viðburðir sem alla jafna sökkva í sæ þegar áherslan er minna á menningu þess utan.

Menningarborgir ársins 2016 eru báðar virkilega frábærar og það burtséð frá titlinum. Sú fyrri er baskneska borgin San Sebastian og sú seinni pólska borgin Wroclaw.

Fyrir þá sem ekki vilja þvælast til Spánar eða Póllands gæti næsta ár komið betur út. Þá er það hin sívinsæla Árósar sem leggur sitt á borð auk kýpversku borgarinnar Paphos sem lumar á ýmsum menningarverðmætum.

Árið 2018 hampa þessum titli hollenska borgin Leeuwarden og maltneska borgin Valetta og ári síðar skipta búlgarska borgin Plovdiv og ítalska borgin Matera titlinum á milli sín.