Allir elska góðan mat og ekki hvað síst þegar við erum erlendis. Kannanir hafa sýnt að ferðafólk almennt, að frátöldum bakpokaferðalöngum, gerir mun betur við sig í mat og drykk utanlands en innan.

Það er æði góð hugmynd að leggja þetta lógó á minnið á ferðum erlendis.
Það er æði góð hugmynd að leggja þetta lógó á minnið á ferðum erlendis.

Fyrir því eru margar ástæður. Fleiri spennandi veitingastaðir og fjölbreyttara úrval. Sú staðreynd að ferðalög eru ákveðinn lúxus í huga flestra og um að gera að fara alla leið með það og borða fínt eins oft og kostur er. Stundum snýst þetta líka um kostnað. Víða erlendis má borða þrí-eða fjórréttað með víni á betri stað fyrir brotabrot af því sem við greiðum á sams konar stað heimavið.

Vart hefur farið framhjá neinum að íslenska krónan hefur verið í frysti lengi vel sem veldur því að hún styrkist ekki mikið heldur þvert á móti dofnar reglulega yfir henni gagnvart helstu gjaldmiðlum öðrum en evrunni upp á síðkastið. Við finnum þetta glöggt á ferðum í Bandaríkjunum þar sem allar ódýru verslanirnar eru ekki eins ódýrar og okkur minnti. Ekki síður í Bretlandi þar sem pundið kostar sífellt fleiri krónur. Svo ekkert sé nú minnst á hve krónan er veikluleg í Osló eða Kaupmannahöfn.

Það er við aðstæður sem þessar sem fólk ætti að leggja Bib Gourmand á minnið. Bib Gourmand kemur úr smiðju Michelin sem auðvitað er þekktast fyrir stjörnugjöf sína á betri veitingahúsum heims. Um þá stjörnugjöf má lesa hér.

Bib Gourmand kalla fræðingar Michelin þá veitingastaði þar sem fá má sérdeilis fínan mat en þó aðeins ef verðið er innan þeirra marka að kallast hagstætt í hverju landi fyrir sig miðað við meðaltekjur fólks. Já, þetta er nokkuð flókin formúla en á mannamáli eru þetta fyrirtaks veitingastaðir sem ekki okra á viðskiptavinum sínum. Frábær matur + ódýr matur = Bib Gourmand.

Sé þetta haft í huga vænkast hagur Strympu og Íslendinga í borgum á borð við Köben (tíu Bib Gourmand staðir), Gautaborg (tveir staðir), Osló (tveir staðir) eða London (52 staðir). Þeir staðir sem þessa viðurkenningu fá eru jafnharðan komnir með límmiða til merkis um árangurinn strax í kjölfarið.

Svo má prófa hina eins, tveggja og þriggja stjörnu staðina þegar fólk er komið í feitar álnir og peningar hættir að skipta máli 🙂