Þegar við hér erum loks að gefast almennt upp á fólki fyrir að gera ætíð það sama á ferðalögum og með jólamatinn, þá birtast greinar sem sýna okkur fram á allt annað og betra 🙂

Hið fátæka Afríkuríki Tógó blæddi engu í kostnaðarsamar auglýsingaherferðir en fjölgar samt ferðamönnum um tugi prósenta.

Hvað meinum við eiginlega?

Jú, einfaldlega það að stór meirihluti fólks sækir alltaf heim sömu áfangastaðina ár eftir ár eftir ár og svo framvegis. Fólk sem fundið hefur sinn stað í veröldinni og kíkir aldrei neitt annað eða lengra. Svona svipað og með jólamatinn; alltaf það sama ár eftir ár.

Í sjálfu sér gott og blessað. Óvitlaust að láta fyrirberast á einum og sama staðnum ef fólki líkar vel svona í teóríunni. En er þá ekki jafn gott að vera bara heima í Grafarholtinu í sófanum yfir sjónvarpinu og spara skildinginn fyrir fleiri sjónvarpsstöðvum eða meira snakki?

Góðu heilli eru fleiri en við sem hugsum að lífið sé of stutt fyrir sömu staðina ár eftir ár. Heimurinn er jú dásamlegur og ekkert jafnast á við að upplifa að eigin skinni.

Þess vegna erum við á Fararheill hæstánægð með nýja úttekt Ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hefur gefið út lista sinn yfir þá áfangastaði heims sem hlutfallslega heilluðu flesta ferðalanga 2018. Þar staðir sem koma verulega á óvart.

Egeeba við Níl. Einn af þúsund stöðum í Egyptalandi sem fróðlegt er að stinga niður fæti eða tveimur.

Eigum við að byrja á Egyptalandi sem tók mót 55 prósent fleiri ferðamönnum það ár en árið 2017? Það þrátt fyrir mýmargar ferðaviðvaranir vestrænna þjóða vegna atviks sem átti sér stað fyrir mörgum árum.

Hvað skal þá segja um Afríkuríkið Tógó? Þar fjölgaði ferðafólki milli ára um 47 prósent þakka ykkur kærlega fyrir. Það engin smáræðis fjölgun og það þrátt fyrir að ekkert sérstakt hafi gerst markvert í Tógó á milli ára.

Ekki er heldur hægt að gera lítið úr Víetnam. Þar var árið 2018 frekar neikvætt fyrir ferðafólk sökum ólgu í stjórnmálum en það breytti ekki því að 29.1 prósent fleiri ferðamenn sóttu landið heim en árið áður.

Og hafi einhver lyft brúnum yfir Tógó og Víetnam má alveg taka andköf yfir staðnum í fjórða sætinu: Palestína!!!

Jamm og japl. Bláfátæk Palestína undir járnhæl gyðinga trekkti 26% fleiri erlenda ferðamenn árið 2018 en 2017. Það ekki lítið afrek hjá þjóð sem á varla bót fyrir boru og er troðin í svaðið á hverjum degi af hálfu Ísraela.

Topp tíu listinn í heild sinni forvitnilegur og hann er svona(% = auking milli ára):

  1. Egyptaland 55,1 prósent
  2. Tógó 46,7 prósent
  3. Víetnam 29,1 prósent
  4. Palestína 25,7 prósent
  5. Niue 25,4 prósent
  6. Nepal 24,9 prósent
  7. Ísrael 24,6 prósent
  8. Maríana-eyjur 24,3 prósent
  9. Tyrkland 24,1 prósent
  10. Ísland 24,1 prósent