Það er með þetta fornkveðna: það sem virðist of gott til að vera satt reynist í 99 prósent tilvika vera prump og puður þegar öllu er á botninn hvolft.

Eitt vinsælt fyrirtæki á Kanarí er Atlanta Tours og við prófuðum einn túr með þeim. Skjáskot

Það þarf ekkert að tölta lengi um á Ensku ströndinni á Kanarí til að rekast á hin ýmsu gylliboð varðandi skoðunarferðir og túra um hvipp og hvapp á Gran Canaria. Eða hvernig hljómar dagsrúntur um eynna alla fyrir svo mikið sem þúsund kallinn eða svo?

Ekki nóg með að það sé næsta gefins heldur og fá allir rauðvínsflösku úr héraði og eins og það dugi ekki til er hádegisverður með áfengi innifalinn líka!!!

Sex til tíu evrur er algengt auglýst verð á hinum ýmsu túrum um Kanarí á Playa del Ingles. Lygilega gott verð miðað við ferðaáætlun því í hverri ferð er bókstaflega þvælst um alla eyju og stoppað á mörgum forvitnilegum stöðum.

Kanarí, Gran Canaria, er lítil en státar af merkilega mörgum yndislegum stöðum.

Miðað við að skipulagðar skoðunarferðir um Kanarí kosta þetta fimm til fimmtán þúsund kall á kjaft sé bókað gegnum íslenskar ferðaskrifstofur er sérdeilis makalaust að hægt sé að fá sama pakka fyrir rétt rúman þúsund kall eða svo. Við létum því reyna á málið í síðustu ferð okkar á ensku ströndina. Við tókum „Den Store Øyturen” með Atlanta Tours. Heildarkostnaður átta evrur eða tæplega ellefu hundruð krónur á haus.

Hver er svo galdurinn við næstum ókeypis skoðunarferðir á Kanarí?

Jú, sú staðreynd að fyrsta stopp í túrnum er alls ekki auglýstur í neinum bæklingum. Það er klukkustundarstopp í smábænum Vecindario þar sem öllum er smalað inn í lítið herbergi í ómerktu húsi og þar fer fram „kynning” á sænskum ullarvörum.

Jamm, þú last þetta rétt. Það eru sænskir aðilar að reyna að selja þér fatnað og sængurföt úr ull undir brennheitri sólinni á Kanarí. Og það eru þeir sænsku aðilar sem niðurgreiða túrinn svo mikið sem raun ber vitni.

Því auðvitað er fráleitt að hægt sé að rúnta um á fínustu rútu í heilan dag með leiðsögn og gjöfum í þokkabót fyrir þúsund kall á kjaft. Þarf ekki mikla stærðfræðikunnáttu til að fatta að slíkt prógramm er dauðadæmt frá byrjun. Ekki ósvipað þeim leigubílstjórum í Víetnam, Tælandi, Laos og Kambódíu sem bjóða rúnta um borg og bí fyrir helming þess sem það ætti að kosta að raunvirði. Þeir aðilar fá allir krónur í vasann frá verslunum sem stoppað er í á leiðinni burtséð frá því hvort farþegarnir hafi áhuga eða ekki.

Fyrir utan þá bráðhlægilegu staðreynd að sænskir aðilar séu að reyna að pranga inn á þig ullarvörum í 35 stiga hita nálægt miðbaug og að varla stóðst neitt af auglýstri ferðaáætlun er það samt okkar niðurstaða að þessir túrar SÉU ÞESS VIRÐI.

Jú, víst þarf að sitja gegnum 30 mínútna plögg fyrir ullarvörum en í kjölfarið er líka boðið upp á grillaðan kjúlla og kalt öl með og það sem eftir lifir er raunverulega túr með góðri leiðsögn. Yfirleitt heimafólk sem leiðir hópinn en jafnan fólk sem kann annaðhvort ensku eða getur vel bjargað sér á norrænum tungumálum. Það fólk, nota bene, fær næstum ekkert greitt fyrir túrinn og því aumingjaháttur að skjóta ekki að þeim nokkrum evrum að ferð lokinni.

Svo er það hitt að sjaldan er auðveldara að kynnast fólki en í dagsferð í rútu og raunin í okkar tilfelli var sú að sama kvöld var öllum boðið í sænska veislu nálægt Jumbo Center. Surströmming og Absolut og allt í boði og heimferðin á hótelið tók tímann enda gengið á fjórum fótum…