Sé að marka auglýsingapóst Wow Air og ferðaskrifstofunnar Gaman ferðir getur par nú komist í níu nátta sólarferð á fínu hóteli í ágúst fyrir 57.450 krónur á haus.

Ódýrara verður það ekki. 114.900 krónur fyrir parið í níu nætur til Spánar. Skjáskot
Ódýrara verður það ekki. 114.900 krónur fyrir parið í níu nætur til Spánar. Skjáskot

Eins og sést á meðfylgjandi skjáskoti úr auglýsingapósti býðst fólki nú að kaupa níu nátta ferðir til Alicante/Albir með sitt hvora 20 kílóa töskuna og morgunverð í kaupbæti fyrir 114.900 krónur fyrir 2 fullorðna.

Það er aldeilis magnað verð á ágætu sólarfríi og merkilegt nokk lægra verð fyrir tvo en fyrir fjögurra manna fjölskyldu til sama staðar á sama tíma. Þar kostar pakkinn á haus 79.900 krónur.

Okkur grunar að hér sé um mistök að ræða af hálfu annaðhvort Wow Air eða Gaman ferða. Uppgefið verð eigi að gilda fyrir manninn miðað við tvo fullorðna en gleymst hafi að setja inn smáa letrið.

En það breytir ekki því að kaupandi á lögum samkvæmt rétt á að fá vöru keypta á því verði sem hún er auglýst. Ferðaskrifstofan verður því að gjöra svo vel að selja þeim umrædda ferð er vilja kaupa túr fyrir tvo á 114.900 krónur samtals. Ellegar er hægt að fara með málið til Neytendastofu og jafnvel dómstóla líka ef fólk fær neitun.