Það er blóðugra en nefið á Gunnari Nelson eftir bardaga að þurfa ekki aðeins að greiða formúgu fyrir að hafa debit- eða kreditkort heldur og punga út seðlum í hvert sinn sem plastið er notað.

Þægilegt en fráleitt ókeypis bankaþjónusta
Þægilegt en fráleitt ókeypis bankaþjónusta

Það vita kannski ekki allir að hver einasta úttekt á slíkum kortum í erlendum hraðbönkum kostar aldrei minna en 650 krónur og stundum meira en það. Skiptir þá engu hvort úttektin er 500 krónur eða 30 þúsund.

Bankarnir taka sem sagt að lágmarki 650 krónur af hverri úttekt ferðamanns erlendis og sá kostnaður er hrein viðbót við þóknun sem velflestir erlendir bankar taka þegar erlend kort eru notuð í hraðbönkum þeirra. Þar telja einhverjir hundrað kallar oft  í viðbót. Að síðustu bætist líka þóknun kortafyrirtækja ofan á kortanotkun erlendis en upphæðin er misjöfn eftir fyrirtækjum.

Auðvitað eru þessar upphæðir ekki stórar per se en fyrir varkára sem ekki vilja vera með fulla vasa fjár á ferðum sínum og fara því oft í hraðbanka fer þetta fljótt að telja.

Ráð væri kannski að taka út sjaldan en hærri upphæðir í senn en þá vaknar líka spurningin hvort ekki sé bara best að geyma kortin heima og ferðast aðeins með seðla. En það býður hættunni líka heim og fátt er leiðinlegra í þessum heimi en vera rænd á erlendri grundu.