Fréttirnar koma hvorki okkur né öðrum þeim er lagt hafa haus á kodda á hosteli undanfarin ár neitt á óvart. Ný stór úttekt sýnir að langmesti vöxtur í gistingu á heimsvísu er hjá íbúðaleigunni Airbnb sem kemur fáum á óvart. Það gæti hins vegar komið á óvart að næstmestur vöxtur er á hostelum þessa heims.

Ekki amalegt þetta framúrstefnulega hótel. Nema kannski að þetta er ekki hótel heldur hostel. Skjáskot
Ekki amalegt þetta framúrstefnulega hótel. Nema kannski að þetta er ekki hótel heldur hostel. Skjáskot

Við höfum verið að benda á þetta nú um nokkurra ára skeið án mikilla undirtekta. Hostel í dag eru mörg hver skrefi á undan og mun skemmtilegri gististaðir en topphótel. Og hvergi er meiri vöxtur í gistingu en á hostelum samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu Global Hostitality Services.

Auðvitað hrýs mörgum hugur við að gista við hlið ókunnugs fólks á ferðum erlendis en á hostelum er raunin oftar en ekki að margir deila svefnplássi þó reyndar flest hostel bjóði ennfremur upp á meira næði líka. Guð minn góður líka að kynnast nýju fólki. Það var ekki meiningin með ferðalaginu…

Táfýla, þrengsli og röð á klósettið? Ekki aldeilis á þessu hosteli í Portúgal.

En þegar þetta er hugleitt gleymist oft að allt þetta „ókunnuga“ fólk sem þú hræðist þegar hostel ber á góma er líklega ekki lengur ókunnugt fólk þegar þú loks leggur haus á kodda fyrsta kvöldið á staðnum. Hostel eru ekkert annað en hress sambýli þar sem allt er annaðhvort frítt eða innifalið í afar lágu gistigjaldinu. Enn er raunin sú á velflestum hótelum, jafnvel rándýrum fimm stjörnu hótelum, að einfaldur netaðgangur kostar hundruð króna hvern einasta dag ef það er þá í boði yfir höfuð. Þau eru fá hostelin þar sem netið er ekki bara algjörlega frítt heldur og á besta mögulega hraða.

Þessi aðkoma sæmir fjögurra stjörnu hóteli. Nema þetta er hostel í Bangkok 🙂

Þá er aðeins eitt talið. Ritstjórnarmeðlimir hafa gist á hosteli með útsýni yfir einhverja flottustu strönd Hawaii, þar sem ekki aðeins var lítil sundlaug á  þakinu heldur og púðar og koddar til að liggja á og slaka, frítt net og kokteilar og vín á opnum bar fyrir tvo dollara per drykk. Nóttin á 19 dollara sem er brandari í samanburði við 46 þúsund króna næturgistingu á fjörurra stjörnu hótelinu við hlið þessa hostels. Ókeypis félagsskapur fólks víða að úr veröldinni á öllum aldri og margir hverjir vinir til lífstíðar í kjölfarið. Þar líka og víðast hvar ókeypis afnot af þvottavél, reiðhjólum, svifbrettum, eldhúsi með öllum nauðsynjum, stórum sýningartjöldum fyrir kvikmyndasýningar og svo framvegis og svo framvegis.

Samkvæmt vefmiðlinum Hostelworld var meðalverð per nótt í almenningsrými á hosteli í á heimsvísu 2016 heilar 1.923 krónur. Settu það í samhengi við meðalverð á næturgistingu á hótelum sem var sama ár: 34 þúsund krónur í New York, 22.400 í Danmörku og rúmlega þrettán þúsund krónur per nótt á Kanarí.

Með öðrum orðum; hægt er að gista á meðalhosteli í tólf daga fyrir sömu upphæð og meðalnótt kostar á hóteli í New York. Eini mínusinn, fyrir flesta, að þurfa að deila herbergi með öðrum áhugaverðum manneskjum.

En sömu „flestir“ tékka yfirleitt ekki út af neinu hóteli með bros á vör og gleði í hjarta. Hótel eru einfaldlega ekki mjög skemmtilegir staðir og munu sennilega aldrei verða. Skiptir þá engu hversu góður maturinn er, rúmið þægilegt eða útsýnið geðveikt. Þetta er samt bara enn eitt hótelið.

Þó er það reyndar svo hjá mörgum nýrri hostelum að í viðbót við kojupakkann getur verið í boði að leigja stakt herbergi fyrir einn eða tvo saman. Þau undantekningarlítið dýrari kostur en þó yfirleitt vel undir því sem kytra kostar á næsta hóteli. Þannig slær fólk tvær flugur í einu höggi: næði á næturnar og félagsskapur allan liðlangan daginn sé það heillandi.

Taktu endilega stökkið. Prófi maður aldrei neitt nýtt, jafnvel eitthvað sem hræðir lítið eitt, þá lærir maður ekkert og deyr fátækari en ella. Engar áhyggjur af aldri. 2009 lenti einn úr ritstjórn í herbergi með 98 ára gömlum Frakka á hosteli í Tangier í Marokkó. Sá var í hjólaferð og hafði hjólað frá Calais og gist á hostelum alla leiðina um 30 daga skeið. Sá var á leið til Ghana og hafði sjaldan skemmt sér betur.

Lífið er til að lifa gott fólk 🙂