Ekki alls fyrir löngu sagði Fararheill frá því að yfirmenn Leifsstöðvar ætluðu að breyta úrvali verslana í Leifsstöð til að koma betur til móts við erlendra ferðamenn en íslenska. Sýnt þætti að þeir íslensku væru einfaldlega ekki að eyða nógu miklu og því væri þetta rökrétt skref til að auka veltu í flugstöðinni.

Dýr er Hafliði allur og Leifsstöð líka samkvæmt nýjustu vefkönnun Fararheill

En kannski er ástæða þess að landinn er ekki að versla í Leifsstöð sú að verslanir þar þykja hörmulega dýrar. Í það minnsta er það álit 68 prósenta þátttakenda í síðustu vefkönnun Fararheill. Til að bæta gráu ofan á svart segjast 26 prósent til viðbótar að í Leifsstöð versli þeir aldrei hvort sem er.

Eftir stendur þá að einungis sex prósent svarenda telja verðlag almennt í verslunum Leifsstöðvar vera gott. Er sáraauðvelt að ímynda sér að fáir legðu leið sína í Kringluna eða á Laugaveginn ef fólk væri sömu skoðunar um verðlag þar.

Ekki gildir þetta aðeins um glingur og dót heldur og um mat og veitingar í stöðinni. Fararheill þekkir dæmi um fólk sem raunverulega útbýr samlokur heimavið áður en haldið er í flug erlendis sökum þess að skitin samloka á veitingastað í Leifsstöð, og reyndar um borð í vélum flugfélaganna líka, kostar handlegg og fótlegg fjárhagslega.

Ekki er um vísindalega könnun að ræða en niðurstaðan gefur nokkrar vísbendingar. Svör bárust frá 359 aðilum að þessu sinni.

Fararheill þakkar þátttökuna og bendir á að ný könnun er komin á vefinn.