Á síðasta ári lét forstjóri lággjaldaflugfélagsins Norwegian eftir sér hafa að hann hefði ekki mikla trú á Ameríkuflugi Wow Air. Hann virðist hafa hitt naglann á höfuðið. 

Brottfararsalur í Keflavík. Íslendinga vegna breytir áreiðanlega engu hvort flogið er til Bandaríkjanna klukkan fimm síðdegis eða tólf á hádegi. En málið snýst ekki um Íslendinga.
Brottfararsalur í Keflavík. Íslendinga vegna breytir áreiðanlega engu hvort flogið er til Bandaríkjanna klukkan fimm síðdegis eða tólf á hádegi. En málið snýst ekki um Íslendinga.

Ameríkuflug Wow Air virðist í lausu lofti ef marka má forstjóra þess í fjölmiðlum síðustu sólarhringa. Hann ber á brjóst sér yfir óréttlæti og einokun og nefnir þar bæði til sögunnar Isavia og Icelandair.

Skúli Mogensen er snargáfaður og veit mætavel og hefur vitað lengi að úthlutun tíma, slots, á Keflavíkurflugvelli er ekki í höndum Isavia heldur norræna fyrirtækisins Nordic Airport Coordination í Danmörku sem sér um úthlutun á velflestum stærri flugvöllum Norðurlanda. Hefðin er sú að þau flugfélög sem fá úthlutaða tíma verða að standa við ákveðinn fjölda ferða árlega og þá fá þau sjálfkrafa endurnýjaðan rétt. Þau geta því einokað ákveðna tíma ef vel gengur.

Ekkert nýtt undir sólinni

Slíkt fyrirkomulag er ekki einskorðað við Keflavíkurflugvöll heldur gildir slíkt meira og minna um alla stærri flugvelli í Evrópu og Bandaríkjunum og reyndar víðar. Þar með er ekki sagt að kerfið sé það allra besta í boði eða það besta fyrir flugfarþega. Um það má deila en þetta er það kerfi sem er við lýði og kannski það eina sem virkar. Ekki gengur að úthluta slottum eftir happadrætti því þá gætu engin flugfélög gert neinar áætlanir fram í tímann.

En vissulega er kerfið þröskuldur fyrir ný flugfélög. Ekki óyfirstíganlegur en hár þröskuldur samt. Og kannski var umsókn Wow Air um flugrekstrarleyfi snemma á síðasta ári ástæða þess að Icelandair snarfjölgaði áfangastöðum sínum vestanhafs í haust og vetur. Mjög líklega er það engin tilviljun. Með því varð Icelandair fyrst að tryggja sér tíma eða áður en Wow Air fékk formlegt leyfi og gat sett inn umsókn.

 „Goodwill“ hunting

Eðlilegt væri að Wow Air fengi úthlutað einu slotti eða svo þá tíma sem þeir sækja um, milli 6 og 8 á morgnana annars vegar og 15 til 17 hins vegar. Það væri einfaldlega „goodwill“ ef svo mætti að orði komast. Wow fengi þannig ekki allt sitt en heldur ekki Icelandair. Með þeim hætti gæti Wow Air sýnt sitt besta og mögulega haldið fargjöldum Icelandair niðri enda samkeppni komin á. Svo væri einnig eðlilegt að farþegafjöldi fyrsta árið eða svo réði því hvort flugfélagið fengi fleiri eða færri slot næsta ár á eftir. Með því að miða slíkt við farþegafjölda í stað fjölda ferða er gengið úr skugga um að það flugfélag sem flestir kjósa að fljúga með, burtséð frá öllu öðru, fái að vaxa og dafna. Þannig nýtur neytandinn góðs af.

Snýst ekki um Íslendinga

Gallinn við þetta allt saman er hins vegar sá að þetta skiptir íslenska neytendur afar litlu máli. Það er ekki verið að rífast um þessi slots til að við njótum góðs af heldur til að halda í eða næla í tengiflugsfarþega milli Ameríku og Evrópu. Því þó ferðamönnum hingað hafi fjölgað mikið er það aðeins brotabrot þess fjölda sem flýgur yfir Atlantshafið og er miklu stærri og feitari biti fyrir flugfélögin en að nokkur þúsund Íslendingar fari reglulega í verslunarferðir til New York eða Boston. Ísland er örmarkaður í öllu tilliti.

Þess vegna er svona mikið mál að fá akkurat þessa tíma en ekki aðra til að fljúga því þannig er hægt að fljúga farþega frá Bandaríkjunum eða Kanada um nótt, lenda hér eldsnemma og koma farþeganum áfram til Evrópu strax klukkustund eða tveimur síðar. Farþeginn er kominn til Evrópu um hádegið. Aðeins með örstuttum biðtíma getur Icelandair keppt við þau fjölmörgu flugfélög sem fljúga beint milli Bandaríkjanna og Evrópu. Þar er stór og feitur markaðsbiti og út af því vill Wow Air komast að kjötkötlunum.

Þess vegna er súrt að Samkeppniseftirlitið sé að fetta sig og bretta. Það er ekki hlutverk þess að viðhalda samkeppni á alþjóðavísu heldur gæta að samkeppni innanlands eða gagnvart íslenskum neytendum. En hér er ekki verið að hugsa um íslenska neytendur. Allavega bendir Samkeppniseftirlitið Wow Air ekki á að vel sé hægt að fljúga til og frá Bandaríkjunum á öðrum tímum en hér um ræðir. Ef verð er lágt eða lægra en Icelandair býður þá skiptir Íslendinga varla höfuðmáli hvort flogið er til Boston klukkan fimm um daginn, á hádegi eða 22 um kvöldið. Í öllu falli býður Wow Air næturflug héðan til nokkurra helstu áfangastaða sinna í Evrópu. Hvers vegna þá ekki til Bandaríkjanna líka?

Það er því holur hljómur í kveini Skúla Mogensen en að sama skapi þarf meira jafnræði að ráða því hvaða aðilar fá úthlutað „bestu“ flugtímunum hverju sinni. Og lög og reglur eru aðeins mannanna verk.