Svo virðist sem Norðurljósin stórfenglegu séu á góðri leið með að verða skrásett vörumerki Norðmanna. Allavega sé tekið mið af viðbrögðum þeirra norsku við notkun finnskra ferðamálayfirvalda á myndböndum þar sem Norðurljósin leika aðalhlutverkið.

Verðmæti í lausu lofti. Norðmenn og Finnar komnir í hár saman út af Norðurljósunum. Mynd Strolic Furlan
Verðmæti í lausu lofti. Norðmenn og Finnar komnir í hár saman út af Norðurljósunum. Mynd Strolic Furlan

Norðmenn hafa frá árinu 2010 markaðssett Norðurljósin sem sérstaklega norskt fyrirbæri og eytt töluverðum fjárhæðum til að koma þeim skilaboðum á framfæri. Sýna enda rannsóknir að það náttúrufyrirbæri er meginástæða þess að fjölmargir einstaklingar sunnar á hnettinum láta sig hafa ferðalag til kaldari landa Skandinavíu.

En nú er súrt milli norskra og finnskra eftir að Finnland brúkaði Norðurljósin til kynningar á landi sínu og telja Norðmenn þar gengið á rétt sinn.

Hafa myndbönd sem Finnar hafa framleitt og sett á YouTube þar sem Norðurljósin leika stórt hlutverk vakið mikla athygli og hálf milljón manns skoðað þau allra vinsælustu.

Það segir Per Arne Tuftin hjá Innovation Norway, sem er landkynningarfyrirtæki norska ríkisins, aldeilis fráleitt. Norðmenn geti ekki staðið hjá og horft á Finna stela Norðurljósamarkaðnum. Gengur Tuftin þessi svo langt að í viðtali við dagblaðið Nordlys í Tromsö lætur hann hafa eftir sér að við svo búið verði ekki unað. „Norðurljósin eru okkar og verða okkar.“

Hjá finnskum ferðamálayfirvöldum yppta menn öxlum og hyggjast halda áfram að nota Norðurljós Norðmanna í auglýsingar á landi og þjóð. Myndbandið vinsæla sem fer í taugar Norðmanna hér að neðan.