Heimsmeistaramót íslenska hestsins hafa gegnum árið þótt merkismót og mikið í þau mót lagt. Fullyrða má hins vegar að mótið árið 2013 mun slá öllum öðrum slíkum mótum við.

Glænýtt mótssvæði verður byggt fyrir Heimsmeistaramót íslenska hestsins árið 2013. Það mót ætti að vera sögulegt í mörgum skilningi.

Hvers vegna skyldi það nú vera? Í fyrsta lagi fer mótið fyrsta sinni fram í stórborg og það í Berlín af öllum borgum en sú er án alls vafa ein sú allra skemmtilegasta heimsóknar í Evrópu allri. Þar er verðlag undir því sem gerist í öðrum stærri borgum álfunnar og sé hægt að segja að saga sé við hvert fótmál á það við um Berlín og margar götur hennar.

Sú staðreynd að mótið fer fram í borg en ekki úti á landi eins og raunin hefur verið undanfarin ár þýðir einfaldlega að áhugafólk getur haft meira fyrir stafni en fylgjast með sýningum eða keppninni sjálfri. Á mannamáli getur konan, skyldi hún hafa minni áhuga á hestum en makinn, haldið í verslunartúr meðan karlálkan glápir úr sér augun á mótinu.

Í öðru lagi þýðir þessi staðsetning að öllum líkindum að mun fleiri áhorfendur munu koma á mótið en ella. Nóg er við að hafa í Berlín en ekki á hverjum degi sem íbúar komast í tæri við íslenska hesta úti á hlaði. Og sá íslenski er afar vinsæll í Þýskalandi.

Í þriðja lagi þá er ekkert vesen að koma sér á staðinn frá klakanum í norðri. Héðan eru í dag beinar ferðir til Berlínar bæði hjá Icelandair og Iceland Express og engin ástæða til annars en svo verði áfram enda staðurinn vinsæll. Það er því hægt að komast þráðbeint á Heimsmeistaramótið á fimm klukkustundum eða svo frá Keflavík. Sem er sýnu betra en þvælast um sveitir á bílaleigubíl til að finna viðburðinn.

Að síðustu ætla mótshaldarar ekki að spara neitt við undirbúning. Þvert á móti er verið að byggja afar glæsilegt mótssvæði nú þegar og þar verður öll aðstaða fyrir hesta og menn fyrirtak.