Við hér erum hugsi yfir tvennu hjá ferðaskrifstofunni Vita. Annars vegar að þeir auglýsi „betra verð“ á flugi til Alicante sem kostar 60 þúsund krónur. Hins vegar að ferðaskrifstofan virðist ekki vita um sín eigin bestu tilboð.

Árið 2002 kann að vera að 60 þúsund krónur hafi þótt príma verð á flugi til Alicante. En ekki lengur. Skjáskot

Ekki í fyrsta sinn sem við rekumst á svona nokkuð hjá stórri ferðaskrifstofu og bendir líklega til að svo hafi verið skorið niður í starfsmannahaldi að vant og gott fólk fær reisupassann og kjúklingar á lágmarkslaunum teknir inn í staðinn.

Dæmi um þetta er stór auglýsing á vef Vita. Auglýsing sem sjá má hér til hliðar. Þar auglýst betra verð til hinnar sívinsælu Alicante. Betra verðið er meira að segja með veglegum bókunarafslætti á svo lítið sem 59.900 krónur.

Dabba dona!!!

Nú kann að vera að starfsfólk Vita hafi aldrei kynnt sér samkeppnisaðilana í flugi eða ferðum. Ef það gerði það kæmist fólkið strax að því að 60 þúsund króna fargjald fram og aftur til Alicante er eins „gott“ verð og geymasýra er toppurinn í andlitskremum. Og nota bene, 60 kallinn er lágmarksverðið…

Hmm. Í ljós kemur að 60 kallinn til Alicante er EKKI lægsta verð sem Vita býður til þess staðar. Skjáskot

En fleira vekur þó athygli á forsíðu þessa dótturfélags Icelandair. Eins og sjá má glögglega á næsta skjáskoti hér til hliðar.

Þar hreint ágætt tilboð, með tösku, til og frá Alicante í maí fyrir næstum helming þess verðs sem ferðaskrifstofan auglýsir sem sitt allra lægsta verð???

Ekkert að því að skottast til Alicante og heim aftur fyrir 35 kallinn eða 17.500 hvora leið með tösku. Það er í betri kantinum.

Vita verður að vita sitt vamm. Það eru til neytendalög í landinu sem banna svona villandi framsetningu og liggja við sektir. Þeir vita þó sennilega eins og við hér að ekkert er eftirlitið fyrir íslenska neytendur og því í góðu lagi að fullyrða eitt en segja svo annað. Enginn neytendafulltrúi er að fara að banka upp á mikið.

Við verðum að passa okkur sjálf 😉