Fararheill hefur um langa hríð hvatt landann til að ferðast á eigin vegum til að spara tug- eða hundruð þúsunda í stað þess að bóka hjá ferðaskrifstofum. Nú mælir ein ferðaskrifstofa með því sama.

Ferðaskrifstofa sem mælir með að fólk ferðist á eigin vegum!!! Hvað er athugavert við þá mynd? Skjáskot
Ferðaskrifstofa sem mælir með að fólk ferðist á eigin vegum!!! Hvað er athugavert við þá mynd? Skjáskot

Eins og sjá má að meðfylgjandi skjáskoti hvetur ferðaskrifstofan Vita, dótturfyrirtæki Icelandair, til þess að fólk bóki siglingar á eigin vegum!!!

Undur og stórmerki ætti vitiborið fólk að hugsa. Hvers vegna ætti fyrirtæki sem væri ekki til ef fólk bókaði ferðir sínar sjálft að hvetja til þess arna?

Jú, hér er Vita að gára vatnið og bjóða í veiði. Vitandi að almenningur hér lætur ekki endalaust bjóða sér okurálagningu á ferðum hvers kyns ætla vitringar samt að næla sér í pening frá þeim sem vilja græja sitt sjálfir.

„Bókaðu siglingu með Celebrity Cruises eða Royal Caribbean Cruise Line. Bókunin þín kemur til VITA og sölumenn okkar aðstoða þig við framhaldið. Við getum bókað flug og gistingu fyrir og/eða eftir ferð. Við útbúum ferðagögn og erum tengiliður þinn á ferðalaginu.“

Jahá! Ferðaskrifstofan ætlar að græja fyrir þig ferðina á eigin vegum. Ákveðin þversögn í því er það ekki 🙂

Það sem ferðaskrifstofan er að gera hér er að auðvelda þér að græja eigin ferð en ekki halda augnablik að það sé ókeypis. Icelandair gerir ekkert ókeypis og þaðan af síður dótturfyrirtækin.

Þó hvergi komi það fram má bóka að Vita tekur þóknun fyrir að leggja þér lið við skipulagningu ferðarinnar á eigin vegum. Pottþétt líka að Vita nýtur þóknunar frá þeim skipafélögum sem hér eru auglýst fyrir selda ferð og auðvitað vonast sölumenn til að gauka að þér einhverju ómissandi stöffi svona í og með sem kostar skildinginn.

Þægilegt vissulega en skipulagning á ferð eða siglingu gegnum ferðaskrifstofu á ekkert skylt við að ferðast á eigin vegum. Þannig er það nú bara 🙂