Einn stærsti eigandi Primera Air, hinn slánalegi Andri Már Ingólfsson, slefar í tæpa tvo metrana á hæðina. Sem gerir kappann að príma dæmi um að menn ljúgi eins og þeir eru langir til.

Frábær flugtilboð með litlum fyrirvara? Vill ekki Andri Már Ingólfsson segja okkur nákvæmlega hvar við finnum þessi frábæru kjör á flugi með skömmum fyrirvara. Því ekki finnast þau við leit. Skjáskot

Primera Air, móðurfyrirtæki Heimsferða, fer mikinn á samfélagsmiðlum þessi dægrin. Öllu fögru lofað en við nánari athugun stendur vart steinn yfir steini.

Skoðum til dæmis fésbókarauglýsingu Primera Air, sem birtist síðast í dag, þess efnis að kjörið sé að bóka flug núna því flugfélagið bjóði extra hagstæð fargjöld á næstu vikum til „hinnar líflegu Costa Blanca,“ og eða til „gimsteins Costa del Sol“ eins og Primera Air orðar það.

Samhliða þessu má sjá að Primera Air þykist geta boðið okkur flug FRÁ 14.999 krónum aðra leið til beggja staða svo aðeins tvo dæmi af nokkrum séu tekin.

En er það raunin þegar allt kemur til alls?

Okkur þykir fyrir að skemma daginn fyrir aðdáendum Andra Más og Primera Air en ekki finnst stafur né stafir þess efnis að fargjöld Primera Air til Costa Blanca eða Costa del Sol séu eitthvað merkileg næstu vikurnar. Þvert á móti eiginlega. Staðan versnar töluvert ef tekin er skitin taska með í ferðalagið. Þá kostar ferðin að lágmarki rúmar 65 þúsund krónur. Sem er, nota bene, ekkert betra verð en Primera Air býður almennt lægst.

Gott og vel. Menn geta jú gert mistök (eða fíflað fólk með vilja.)

Öllu verra með Costa Blanca. „Hin líflega Costa Blanca-strandlengja. Verð frá 14.999 ISK,“ eins og segir í auglýsingu Primera Air hér að ofan.

Ekkert hræðilegt fargjald fram og aftur til Costa del Sol en fjarri því merkilegt heldur og alls ekki lægra fargjald en hægt er að finna hjá Primera Air almennt með góðum fyrirvara.

Lægsta verð sem við finnum með Primera Air til og frá Alicante með litlum fyrirvara er 38 þúsund tæpar en ekki tæplega 30 þúsund eins og flugfélagið gefur í skyn. Skjáskot

En það er sama hvað við skoðum vef Primera Air. Eini áfangastaður flugfélagsins á Costa Blanca á Spáni er Alicante og við finnum alls ekkert með „litlum fyrirvara“ sem kostar minna en 37 þúsund krónur fram og aftur og þá með ekkert innifalið. Hvorki sæti né taska.

Sem er undarlegt því 14.999 krónur sinnum tveir gera rétt tæpar 30 þúsund krónur en ekki 37 þúsund krónur eins og vitiborið fólk gerir sér grein fyrir.

Ok, ekkert nýtt að fyrirtæki blöffi og svíni í auglýsingum. Reyndar er það svo að á vef Primera Air má sjá þeirra allra „lægstu fargjöld“ nokkuð fram í tímann eins og sjá má hér til hliðar.

Allra lægstu fargjöld Primera Air næstu mánuðina. Skjáskot

Þar sannast hið fornkveðna. Ekki skal láta blekkjast af gylliboðum fyrr en vefsíðan öll er skoðuð.

Í ljós kemur að alls ekki er hægt að komast til Malaga með litlum fyrirvara fyrir 14.999 krónur. Lægsta verð á flugi aðra leiðina þangað kostar 21.999 krónur og er í boði í byrjun september.

Það er þó hrein hátíð miðað við flug til Alicante. Víst er þangað komist lægst fyrir 11.499 krónur aðra leiðina per haus en ekki fyrr en þann 31. október. Dagsetning sem fer aldrei í orðabækur sem „lítill fyrirvari.“ Nema kannski Primera Air lifi að hætti Vigdísar Hauksdóttur sem sagði „strax“ vera mjög teygjanlegt hugtak.

Ekkert nýtt hér á ferð. Andri Már ekki alls ókunnur því að blekkja viðskiptavini sína eins og Fararheill hefur bent á oft og ítrekað. Sem því miður þykir merkur árangur á stöðum eins og hjá Frjálsri verslun sem gefið hefur Andra Má gullkross á bringu fyrir viðskiptavit.

Má því segja að forðast beri að eiga viðskipti við þau fyrirtæki sem skora hátt á listum Frjálsrar verslunar því þau eru undantekningarlítið að okra og ljúga að okkur. Og ekki er á Neytendastofu að treysta fremur en aðrar ríkisstofnanir til að gæta þess að ekki sé logið að okkur lon og don.