Það mun vera nokkur nýjung að börn séu orðin fullorðin strax um sjö ára aldur. Því heldur ferðaskrifstofan Gaman ferðir fram fullum hálsi og krefst fullorðinsgjalds fyrir alla sem náð hafa þeim aldri.

Hvenær er barn barn og hvenær ekki? Ferðaskrifstofurnar hafa sína hentisemi á því. Skjáskot
Hvenær er barn barn og hvenær ekki? Ferðaskrifstofurnar hafa sína hentisemi á því. Skjáskot

Það er mjög smekklegt og þægilegt fyrir ferðaskrifstofuna. Krefja sjö ára börn, því börn eru sannarlega ekki fullorðin um það leyti, um fullt verð í pakkaferðum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Gaman ferðir er helsti ferðavinur flugfélags fólksins, Wow Air, en þar á bæ greiða börn allt niður í tveggja ára aldur sama verð fyrir flugmiðana og fullorðnir. Sem er töluvert á skjön við það sem við hin köllum börn eða hvað alþjóðastofnanir flokka sem börn.

Wow Air er þó ekki að finna upp hjólið í þessu tilfelli. Mörg lággjaldaflugfélög Evrópu heimta fullorðinsgjald um tveggja ára aldur og er þar miðað við að barnið þurfi sitt eigið sæti en sitji ekki í fangi móður eða föður. Það er kannski hægt að færa rök fyrir að heilt sæti eigi að kosta sitt burtséð frá hversu þungur eða lítill einstaklingur noti það. Það breytir þó ekki því að flest önnur flugfélög miða við tólf ára aldur og sömuleiðis flestar aðrar ferðaskrifstofur en Gaman ferðir.

Lítið gaman að greiða fullorðinsverð fyrir fimmtán kílóa þungt þriggja ára barn og því kannski óvitlaust að hafa aldur barna í huga þegar verið er að skoða ferðapakka með smáfólk í för.