Ferðaskrifstofur hérlendis hófu strax í júlí að auglýsa skíðaferðir næsta árs sem flestar hefjast upp úr áramótunum. Víðast hvar er um góðkunningja að ræða eins og Madonnu di Giglio, Zell am See og Selva Val Gardena.

Ekki aðeins eru brekkurnar í Kitzbühel í Austurríki fyrsta flokks heldur er bærinn sjálfur afskaplega yndislegur.

Fararheill ráðleggur þeim er langar að skíða í alvöru brekkum þennan veturinn að hinkra aðeins við með að bóka eða kaupa því hægt er að komast öllu billegar á eðal skíðasvæði en með íslenskum ferðaskrifstofum.

Til þess eru tvær leiðir hið minnsta. Annars vegar flýgur Wow Air til Salzborgar í Austurríki sem er næsti flugvöllur við marga af þekktustu skíðastöðum Evrópu.

Unnendur skíðaíþrótta þekkja ábyggilega skíðasvæði á borð við Kitzbühel, Zell am See eða Saalbach. Til Salzborgar er flugið styttra en til Bologna sem er helsti áfangastaður íslenskra ferðaskrifstofa sem bjóða skíðaferðirnar þennan veturinn. Þá er vegalengdin frá Salzburg að skíðabrekkunum skemmri en það tekur að fara frá Bologna í brekkurnar Ítalíumegin. Gallinn reyndar sá að Wow Air hefur enn ekki birt verðskrá sína fyrir næsta vetur en ferðir til Salzburg hefjast í janúar 2013.

Hinn kosturinn er að verða sér úti um billega ferð til Oslóar í byrjun næsta árs en þaðan er komist með lágfargjaldaflugfélaginu Norwegian til Salzburg, Genfar í Sviss eða Grenoble í Frakklandi og það fyrir klink svo lengi sem farið er keypt fyrir 3. september næstkomandi.

Þannig kostar ódýrasta fargjaldið fram og til baka til Salzburg frá Osló í janúar aðeins rétt tæpar 17 þúsund íslenskar krónur miðað við stöðuna á bókunarvél Norwegian þegar þetta er skrifað. Bætið við fimm þúsund krónum í farangurskostnað og þannig komast tveir saman í brekkurnar í Ölpunum í janúar fyrir 44 þúsund krónur. Vitaskuld fyrir utan fargjöld til og frá Osló.

Berið það saman við kostnað við ferðir með Icelandair til Bologna á Ítalíu kjósi menn að fara á eigin spýtur á skíði. Ódýrasta fargjald flugfélagsins þegar þetta er skrifað fyrir tvo í janúar kostar 169.540 krónur. Iceland Express býður einnig upp á flug til Bologna en engin flug er að finna þangað í vetur á vef félagsins.

Það má því komast tiltölulega ódýrt á skíði hafi menn nennu til að bera sig eftir því það er auðvitað hundleiðinlegt að millilenda á Gardemoen flugvelli á leiðinni í brekkurnar í Ölpunum.