Þú vissir kannski ekki að til er ítölsk útgáfa af hinni glæstu höll Versölum? Hún er raunverulega til og raunverulega kölluð Versalir Ítalíu af Ítölum sjálfum. En kannski ekki mikið lengur.

Slotið fræga sem Ítalir hafa engin efni á að viðhalda og er að hrynja til grunna. Mynd Marco Segato
Slotið fræga sem Ítalir hafa engin efni á að viðhalda og er að hrynja til grunna. Mynd Marco Segato

Á frummálinu heitir fyrirbærið Reggia di Caserta eða Caserta höllin á hinu ylhýra. Sú er til skiptis kölluð bara Caserta eða Reggia og var og er stærsta konungshöll sem byggð hefur verið fyrr og síðar. Höllin sjálf ekki nema 47 þúsund fermetrar að stærð eða litlu minni en Smáralind eins og hún leggur sig. Þá á eftir að bæta við risastórum garðinum sem umlykur allt saman.

Það var Karl tólfti af Napólí sem lét byggja þetta ferlíki og vildi þar ekki minna mannvirki en Versali í Frakklandi og konungshöllina í Madríd. Nei, Caserta skyldi bera af í stærð og flottheitum og það markmið náðist þó reyndar Karl sjálfur hafi ekki eytt einni einustu nótt í slotinu þegar allt kom til alls.

Caserta er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem gersemi sem höllin er svo sannarlega. En gljáinn er þó að mestu farinn af og illt er í efni. Það er nefninlega svo, eins og víðar í landinu, að bláfátæk stjórnvöld hafa engin efni á viðhaldi hér.

Ekki vantar glæsilegheitin en sé farið nær má sjá að höllin er orðin illa farin.
Ekki vantar glæsilegheitin en sé farið nær má sjá að höllin er orðin illa farin.

Ítalska dagblaðið Corriere della Sera segir frá því að lagfæringar sem bráðnauðsynlegar þóttu strax um aldamótin hafi ekki hafist. Sífellt brotnar meira úr steypu hallarinnar og ekki síður grotna styttur og skreytingar í garðinum hægt og bítandi. Þá hafa óprúttnir stolið hér flestu merkilegu enda hæg heimatökin því stillasar eru um allt þó engin vinna við lagfæringar hafi átt sér stað. Rök er færð fyrir að skemmdir séu orðnar það miklar að erfitt geti verið að snúa þróuninni við úr þessu.

Sem er svona svipað og með hálendið okkar Íslendinga. Um að gera að berja dásemdir þar augum áður en vegir, raflínur, sjoppur og stíflur breyta því til mun verri vegar. Sömuleiðis er óvitlaust að gera sér ferð til Caserta áður en allt fer þar endanlega til fjandans.

Til Caserta er stutt að fara frá Napolí þó umferð sé reyndar þung yfir sumartímann. Sama gildir um túrinn frá Róm sem er um tveggja stunda akstur. Hingað er líka komist með lest frá Róm×