Um það eru allir sammála sem reynt hafa; lestin sem fer milli bæjarins Salta við landamæri Argentínu og Chíle og smábæjarins San Antoniode los Cobres í fjögur þúsund metra hæð á sléttum Argentínu er mest ógnvekjandi lestarferð sem hægt er að fara.

Himnalestin á einni af fjölmörgum ekkert alltof traustvekjandi brúm sem eru á þessari leið. Mynd Weaver
Himnalestin á einni af fjölmörgum ekkert alltof traustvekjandi brúm sem eru á þessari leið. Mynd Weaver

Tekur ferðin fram og til baka heilar fimmtán klukkustundir og þegar haft er í huga að bæði lestin, járnbrautin sjálf og þær tugir brúa og ganga sem um er farið á leiðinni eru öll komin vel til ára sinna verður oft lítið um svefn eða slökun á leiðinni. Þvert á móti er lofthræddum og fólki með slæmt hjarta beinlínis ráðlagt hart að salta þessa ferð alveg. Er enda hæsta brúin af mörgum sem yfir er farið 61 metra há en til samanburðar er Hallgrímskirkjan okkar fallega 74 metrar. Þær brýr eru allar komnar til ára sinna og uppfylla ekki nútímakröfur um brúarsmíði.

Fara þarf sérstaka ferð hafi ferðalangar hug að láta vaða eina ferð eða svo. Salta er ekki sérstaklega í ferðaplönum fólks í Argentínu enda eins langt inni í landi og hægt er. Bærinn sjálfur er þó fallegur og ber sterkan keim af gömlum nýlendubæ enda voru Þjóðverjar og Ítalir grimmir að setjast að í nálægum héruðum á árum áður. Eru íbúar orðnir töluvert sjóaðir að taka móti erlendum gestum og enginn skortur er á góðum eða sæmilegum gisti- eða veitingastöðum. Þá er og eftirminnilegt að ríða um héraðið enda grösugt og tilkomumikið og auðvelt er að leigja hesta eða vélknúin ökutæki til þess arna.

Áfangastaðurinn San Antonio de los Cobres er lítill námubær sem má muna fífil fegurri og lifa nú margir þar á að selja ferðamönnum með lestinni veitingar og minjagripi. Fátt er þar merkilegt að sjá.

Heimamenn hafa fyrir allnokkru uppgötvað hversu langt ferðamenn eru reiðubúnir að ganga til að taka eina ógleymanlega himnaferð, Tren a las Nubes þýðir bókstaflega Himnalestin, og kostar farið fram og tilbaka milli 20 og 25 þúsund krónur eftir því hvenær árs er farið.

Aðeins er flogið til og frá Salta frá höfuðborginni Buenos Aires og er flugtíminn tvær klukkustundir og 30 mínútur. Helstu kostir að reyna flugfélögin Aerolineas Argentinas http://www.aerolineas.com.ar/home.asp eða LAN http://www.lan.com/cgi-bin/country_selector.cgi. Í öllu falli finna líka leitarvélar á borð við Momondo eða Dohop öll flug þarna á milli.

Rútuferðir til og frá Salta eru algengar frá ýmsum stöðum í landinu. Frá Salta er líka hægt að komast með rútu til Chile. Hyggist menn taka lestarferðina ógurlegu er nauðsynlegt að panta fyrirfram enda aðeins ein ferð daglega og ferðamenn eru hér býsna fjölmennir.

salta