Það er ekki allt gott sem samfélagsmiðlar á netinu hafa í för með sér. Nú hafa minnst fjórar borgir heims skorið upp herör gegn þeirri vinsælu iðju ástfanginna að festa hengilás á brýr hér og þar sem tákn um ást sína og eilífa hamingju.

Í París er hengilásaæðið svo mikið að það er farið að ógna Pont des Arts brúnni fallegu. Mynd Fabrizio Sciami
Í París er hengilásaæðið svo mikið að það er farið að ógna Pont des Arts brúnni fallegu. Mynd Fabrizio Sciami

Auðvelt væri að draga þá ályktun að hengilásar séu tiltölulega nýleg uppfinning enda varla svo langt síðan hægt var að vinna stál, kopar og járn til að útbúa lása og lykla á borð við þá sem við þekkjum í dag. Það er þó fjarri lagi og má rekja hengilása allt aftur til Egyptalands til forna eða mun lengur en flestir halda.

Að sama skapi hafa ástfangnir gegnum tíðina notað hengilása til að „læsa“ ást sína að eilífu og gert það á eins opinberum stöðum og hægt er. Þannig má víða í Evrópu sérstaklega finna hengilása í þúsundavís á brúm, handriðum og annars staðar þar sem þeir fá að vera í friði en eru þó fyrir augum fólks.

Slíkt var ekkert sérstakt vandamál meðan þetta gerðu aðeins stöku pör stöku sinnum en fyrir nokkrum árum blossaði upp mikið æði fyrir þessu á samfélagsmiðlum og Kaninn sérstaklega tók þetta alla leið. Varla fer ástfangið par í reisu til Evrópu lengur án þess að hafa lás meðferðis og brú í huga þar sem lásinn skal hengdur.

Þetta ekki einskorðað við Evrópu. Borgaryfirvöld í Chicago, þar sem brýr eru æði margar, eru með teymi fólks sem eingöngu losar lása af brúm þar í borg. Sömuleiðis í Sidney í Ástralíu. En það er í París og Feneyjum sem vandamálið er orðið það stórt að borgaryfirvöld beggja borga íhuga aðgerðir eins og sektir ef fólk er staðið að því að festa lása á opinberum stöðum.

Í París er málið reyndar það alvarlegt að fjöldi lása sem hangir á Pont des Arts brúnni fallegu er það mikill að það ógnar beinlínis undirstöðum brúarinnar. Lásarnir þar svo margir að þyngd þeirra skiptir orðið fleiri hundruð kílóum.

Verst kannski að þó ástfangnir hafi „innsiglað“ ást sína með slíkum hætti í árafjöld hækkar aðeins skilnaðartíðni í hinum vestræna heimi og ætli eitthvað sé sorglegra eða hallærislegra en sjá gamla „góða“ lásinn hangandi löngu síðar þegar viðkomandi er á ferð með nýjum maka.