Þeir kalla þetta sérstakt jólatilboð. Vika fyrir tvo með hálfu fæði á góðu fjögurra stjörnu hóteli á Costa Adeje frá 28. mars til 4. apríl næstkomandi. Þó ekki meira „jólatilboð“ en svo að við finnum sama pakka rúmlega 40 þúsund krónum ódýrari.

Eins og við hjá Fararheill höfum áður bent á hafa fáar ferðaskrifstofur sömu tækifæri og Gamanferðir til að koma vel fram við hugsanlega viðskiptavini. Þetta er eina ferðaskrifstofan með sérsamning við Wow Air og ekki flogið með öðrum aðilum. Þar sem Wow Air býður oft mun lægra verð en aðrir á túrum hingað og þangað ætti það að skila sér í lægra verði á ferðapökkum líka. En á því er misbrestur í meira lagi.

Hér til hliðar sjáum við „jólatilboð“ Gamanferða. Ágæt ferð en kostnaðurinn 259.600 krónur á parið sem er vel í lagt fyrir vikutúr. Flogið með Wow Air.

Ef við kíkjum á vef Wow Air finnst flugið þessar dagsetningar fyrir tvo án farangurs fyrir alls 81.995 krónur.

Kíkjum því næst á hótelbókunarvef Fararheill og finnum sama hótelið á sömu dögum. Hvað kemur í ljós? Jú, gisting 28. mars til 4. apríl með hálfu fæði fyrir tvo finnst þar lægst á 138.699 krónur. Alls samtals 220.694 krónur.

Niðurstaðan er því sú að í stað þess að grípa umhugsunarlaust þetta sérstaka „jólatilboð“ Gamanferða þá spara hjón eða par sér tæplega 40 þúsund krónur með því að eyða sirka fimm mínútum í að bóka ferðina sjálf. Það líklega hæsta tímakaup sem þú hefur nokkurn tíma fengið 🙂

Ekki láta plata þig…