Skip to main content

Það eru lággjaldaflugfélög og svo eru lággjaldaflugfélög. Tvö slík bjóða okkur næsta sumarið ferðir til eyjunnar grænu en verðmunur á þeim ferðum feitur og mikill.

Tvö lággjaldaflugfélög en gríðarlegur verðmunur á svipuðum ferðum.

Tvö lággjaldaflugfélög en gríðarlegur verðmunur á svipuðum ferðum.

Þar er annars vegar um að ræða hið sjálfskipaða íslenska lággjaldaflugfélag Wow Air sem flýgur næsta sumarið beint milli Dublin og Keflavíkur og svo easyJet sem býður reglulega flug héðan til Belfast.

Eins og forsjálum ferðalöngum sæmir er ávallt snjallráð að bóka slíkar ferðir með eins góðum fyrirvara og mögulegt er og einhver hefði haldið að bókun með átta mánaða fyrirvara tryggði allra lægsta verð.

En í þetta skiptið er aðeins um slíkt að ræða í öðru tilfellinu eins og sjá má glögglega á meðfylgjandi verðtöflu. Þar höfum við tekið saman lægsta verð á flugi fram og aftur fyrir einn einstakling með sköttum og gjöldum til Belfast annars vegar og Dublin hins vegar.

Hér ber að hafa í huga að flugleiðin til Dyflinnar er um tíu mínútum lengri en til Belfast og auðvitað er tæknilega um tvö lönd að ræða svo ekki er skattlagning með nákvæmlega sama hætti. Engu að síður er verðmunurinn sláandi þegar þetta er skrifað. Í hvorugu tilfellinu er farangur með annar en handfarangur og meira að segja þar leyfir easyJet þyngri tösku en Wow Air án þess að til komi sérstakt aukagjald.

Hér er sem sagt um helmingsmun að ræða og gott betur sem er makalaus verðmunur á rúmlega tveggja stunda flugi hjá tveimur lággjaldaflugfélögum. Það komast í raun tveir einstaklingar til Írlands með easyJet á sama verði og einn með Wow Air og sé um fjölskyldu eða stærri vina- eða vinkonuhóp að ræða getur sparnaðurinn numið fleiri tugum þúsunda að versla við breska flugfélagið í stað þess íslenska.

Í þokkabót setjum við hjá Fararheill spurningarmerki við að dýrara sé að fljúga með löngum fyrirvara til Írlands en að fljúga í næstu viku til London með Wow Air. Síðarnefnda flugið er töluvert lengra.

* Öll verð rétt kl. 9 þann sextánda október 2014. Evruverð easyJet færð í krónur miðað við miðgengi dagsins. Hafa skal hugfast að verð breytist ört hjá báðum flugfélögum.