Flestir setja nokkuð í brúnir þegar þeir fregna að stærsta bænahús heims sé ekki Péturskirkjan í Róm, dómkirkjan í Sevilla eða nokkur önnur slík bygging á vesturlöndum reyndar. Það mannvirki finnst á einskismannslandi nálægt smábæ á Fílabeinsströndinni í Afríku.

Heiðurinn af því að vera stærsta kirkjuhús veraldar samkvæmt Heimsmetabók Guinness er Frúarbasilíka friðarins, Basilica of Our Lady of Peace, í bænum Yamoussoukro á Fílabeinsströndinni.

Basilíkan magnaða. Allt hér er gert af mannahöndum og meira að segja vötnin líka. Mynd assemian.
Basilíkan magnaða. Allt hér er gert af mannahöndum og meira að segja vötnin líka. Mynd assemian.

Basilíkan sem aðeins er rúmlega 30 ára gömul er eftirmynd, en ekki nákvæm þó, af öllu frægari Péturskirkjunni í Róm en hugmyndin að reisa risavaxna basilíku í landi þar sem aðeins rúm 30 prósent landsmanna eru kristnir kom frá einræðisherra landsins sem vildi ólmur skilja einhver veraldleg merki eftir handa fólki sínu eftir sinn dag.

Gallinn bara sá að risavaxin basilíka á tiltölulega afskekktum fæðingarstað forseta landsins er nákvæmlega eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Eins og framantalið sé ekki nógu slæmt fara engar athafnir fram í basilíkunni. Önnur kristin kirkja er þar skammt frá og þar safnast kristnir í héraði saman þegar þurfa þykir.

Engin vafi leikur þó á að tilþrifamikið hlýtur að vera að ganga fram á þetta kristilega ferlíki á miðju einskismannslandi á Fílabeinsströndinni af öllum stöðum. En fólk losnar alfarið við mannþröng og raðir eins og raunin er alltaf við Péturskirkjuna í Róm.