Deila má um margt undir sólinni en varla lengi um þá staðreynd að Charles nokkur Darwin var og er einn merkilegasti vísindamaður mannkyns. Þó kannski ekki fyrir trúarofstækisfólk sem trúir frekar á Adam og Evu og snák sem talar.

Skrifborð Darwins í vinnustofu hans. Þar er allt sagt vera því sem næst eins og það var þegar karlinn kvaddi þennan heim. Mynd Paul Williams
Skrifborð Darwins í vinnustofu hans. Þar er allt sagt vera því sem næst eins og það var þegar karlinn kvaddi þennan heim. Mynd Paul Williams

Fyrir okkur hin með heilbrigða hugsun í kollinum er Darwin stjarna. Engum hefur enn tekist að sýna fram á að kenning hans um þróun tegundanna sé röng þrátt fyrir ýmsar tilraunir . Þvert á móti eru vísindamenn að mestu leyti sannfærðir um að Darwin hafi hitt naglann á höfuðið árið 1859. Það þarf skothelda kenningu til að halda vatni svo lengi.

Það er líka svo, í það minnsta í okkar tilfelli, að það er eitthvað æði sérstakt við að standa í vinnustofu Darwins. Þá er ekki verið að meina skrifbækur hans eða stækkunargler eða annað það sem hér finnst á borðum og hillum. Né heldur þær bækur sem hann hélt upp á og eru hér enn. Nei, það er einhver andi hér inni sem gerir tiltölulega lítið herbergið töluvert stærra en það er.

Kannski veistu af því og kannski ekki en það er hægt að heimsækja heimili karlsins og það bráðgóður túr frá London þó aðeins þurfi að hafa fyrir. Heimili hans og sá staður þar sem hann setti saman hina frægu kenningu sína er opið heimsóknar alla daga ársins milli 10 og 18. Húsið kallast Downs og finnst í smábænum Downe í Kent-héraði ekki svo langt frá Biggin Hill flugvellinum.

Akstur hingað frá miðborg London tekur um klukkustund en þar sem traffík er oft hreint morð í þeirri borg nota margir strætisvagna til að fara þessa leið fram og aftur. Það tekur svipaðan tíma en er ívið þægilegra. Jarðlest, Tube, frá Paddington eða Charing Cross til Orpington. Þar upp í vagn R8 beint til Downe þaðan sem um 5 mínútur tekur að rölta að heimili Darwins.

Heimasíðan hér.