Athygli hefur vakið undanfarið auglýsing frá ferðaskrifstofunni Farvel um tveggja mánaða vetrardvöl á draumaeyjunni Balí í Indónesíu með topp fararstjórum og alls kyns skoðunarferðum og dúlleríi. En verðmiðinn á þessari ferð er út í hróa og hött jafnvel líka.

Strandlengjan við Sanur á Balí.
Strandlengjan við Sanur á Balí.

Það hittir ábyggilega marga í hjartastað að klippa tvo miður góða vetrarmánuði úr dagatalinu hér heima og njóta eilífs sumar á Balí þar sem verðlag á mat, drykk, þjónustu og vörum er á pari við Costa del Sol á Spáni. Aðrir eru vafalítið hrifnir af leiðsögn Örnólfs Árnasonar um svæðið og ekki er neikvætt að komast í hugleiðslu reglulega líka með eiginkonu hans Helgu E. Jónsdóttur.

Þessi pakki Farvel kostar frá 839 þúsund krónum á mann miðað við tvo saman eða kringum 910 þúsund krónur ferðist fólk eitt síns liðs. Samtala fyrir hjón eða par því ein milljón sex hundruð þúsund sjötíu og átta krónur alls. Ekki gefið á neinu tungumáli.

Nú vantar ýmsar upplýsingar um ferð þessa hvort sem er í auglýsingum eða á vef þeirra. Til að mynda kemur hvergi fram hvaða hótel um er að ræða sem gist er á í ferðinni. Er þetta þriggja stjörnu gisting, fjögurra eða fimm? Aðeins sagt að um flott hótel sé að ræða og það með hálfu fæði. Það dapurt en líkast til er enn ekki búið að gera samning við nein hótel ennþá.

Unaðsbólur fóru um alla ritstjórn Fararheill við tilhugsunina um tvo mánuði undir sólinni á Balí en sömuleiðis hraus okkur mjög hugur við auglýstu verði. Það virtist vera skringilega hátt.

Við fórum því lauslega á stúfana. Flug héðan til Balí á sömu eða svipuðum dagsetningum og ferð Farvel tekur fæst lægst niður í 132 þúsund krónur á mann brúki fólk flugleitarvél á borð við Dohop eða Momondo. Ekkert hræðilegt verð og það gildir alla leið frá Keflavík og til baka. Par eða hjón greiða því kringum 260 til 270 þúsund fyrir flug til Balí og heim á nýjan leik.

Svo kíktum við á kostnað við mánaðardvöl á nokkrum hótelum í Ubud og Sanur, þar sem gist verður í ferð Farvel. Á hótelvef okkar fundum við meðal annars þetta:

ubud1
30 nætur á fimm stjörnu Lokha Ubud Resort án fæðis fæst niður í 258 þúsund krónur. Tveir mánuðir hér kosta því rétt rúmlega hálfa milljón.
ubud2
Ekki versnar það hér. Heill mánuður með morgunverði á fjögurra stjörnu Sapu Lidi Resort Spa fyrir heilar 125 þúsund krónur eða 250 þúsund fyrir allan tímann sem um ræðir.
ubud3
Ef lúxus skiptir litlu máli er þriggja stjörnu pakkinn kappnóg og hér kostar mánuðurinn heilar 95 þúsund krónur.
san1
Þaðan af síður er dýrara að eyða mánuði í Sanur. Hér príma gisting með morgunverði niður í 197 þúsund fyrir heilan mánuð.

Fjölmörg slík tilboð er að finna á hótelvef okkar hér að neðan fyrir áhugasama en væntanlega rennir lesendur í grun hvert við erum að fara með þetta. Jafnvel þó við veljum dýrasta kostinn hér að ofan og leggjum við einn mánuð til kostar toppgisting aðeins hálfa milljón króna. Bætum við flugkostnaði fyrir parið og við erum með tveggja mánaða túr á Balí fyrir 770 þúsund krónur plús klink til eða frá.

Verðmunur á okkar pakka annars vegar og pakka Farvel hins vegar fyrir parið er rúmlega NÍU HUNDRUÐ ÞÚSUND krónur. Inn á okkar pakka vantar fararstjórn, jóga, leiki og skoðunarferðir og ekki er hálft fæði tekið með. Engu að síður má ljóst vera að hér er assgoti vel lagt á pakkann hjá Farvel.