Fjöldi „smáríkja“ finnast um víða veröldLitla Katalónía, Mynd Joan GrifolsGluggi heimsins í Kína. Mynd WotWItalia en Miniatura. Mynd IeMMiniatur Wonderland. Mynd MWMini Europe. Mynd xpats

Lególand hvað! Þótt Lególandið sé velþekkt íslenskum börnum á ýmsum aldri og sé ábyggilega á ferðaáætlun flestra Íslendinga sem um Danmörk ferðast með smáfólk í för er slík smáríki að finna ansi víða í heiminum.

Fjöldi „smáríkja“ finnast um víða veröld
Fjöldi „smáríkja“ finnast um víða veröld

Þannig má virða fyrir sér í dag stórkostleg mannvirki á borð við Eiffel turninn, Sagrada kirkjuna og Hagia Sophia í smækkaðri mynd í görðum sem gefa Lególandi lítið eða ekkert eftir.

Ritstjórn tók saman nokkra mola um skemmtilegustu smáríki heims, eins og við köllum garða þá þar sem finna má nákvæmar eftirlíkingar af hverfum, borgum og frægum byggingum, og eru ekki síður þess virði að heimsækja en Lególand í Billund.

√ Katalónska smáríkið ( Catalunya en Miniatura )

Fáar borgir standa Barcelóna framar í fegurð. Ekki aðeins er gamli miðbærinn bæði heillandi og dularfullur, saga og stórkostlegt útsýni frá Montjuïc hæð og Tibidabo og urrandi líf í flestum hverfum borgarinnar heldur hefur ákveðinn Gaudí með óhefðbundnum arkitektúr sínum bætt um betur. Fullyrt skal að engir ferðamenn til Barcelóna hverfi þaðan á ný án þess að missa sig yfir verkum hans.

En það er einföld leið að komast í tæri við helstu kennileiti borgarinnar á einum og sama blettinum í Catalunya en Miniatura. Þar má finna eftirlíkingar af mörgum bygginum Barcelóna á öllu minni skala en fyrirmyndirnar. Og ekki aðeins byggingar þeirra borgar heldur og eftirlíkingar af hæðum og fjöllum og meira að segja smærri fjallaþorpum.

Eins og raunin er í Lególandinu danska og öðrum Lególöndum sem um heiminn finnast eru hér fjöldi leiktækja og afþreyingar annarrar svo smáfólkið á bágt með sig að prófa það sem hægt er. Segja forsvarsmenn garðsins að þetta sé stærsti garður slíkrar tegundar í heiminum. Hvort sem það er rétt eður ei er víst að hér geta börn á öllum aldri haft gaman af að eyða tímanum. Garðurinn er nokkuð til vesturs af borginni sjálfri við Torrelles de Llobregat. Heimasíðan.

√ Litla Evrópa ( Mini Europe )

Eitt helsta aðdráttaraflið í Brussel í Belgíu er smáríkjagarðurinn Mini Europe sem stendur í sama garði og skúlptúrinn mikilfenglegi Atomium sem sést víða að og er orðið tákn borgarinnar fyrir utan að vera miðstöð hins umdeilda Evrópusambands.

Litla Evrópa er eins og nafnið gefur til kynna Evrópa í smækkaðri mynd eða öllu frekar stórkostlegar byggingar álfunnar í smækkaðri mynd. Afar vel hefur tekist til og eru þær fáar eftirlíkingarnar sem almenningur þekkir ekki á þessum stað. Allt frá hinu glæsta Grand Place torgi Brussel sjálfrar góndólaræðara í Feneyjum.

Gengu skipuleggjendur lengra og er meira að sjá en glæstar byggingar. Þannig gýs Vesúvíus reglulega í garðinum og sömuleiðis má fylgjast með frönskum hraðlestum þvælast um Frakkland á ofsahraða.

Sömuleiðis getur smáfólkið hér haft áhrif á gang máli í Evrópu enda safnið gagnvirkt og foreldrar þurfa litlar áhyggjur af hafa af fikti smáfólksins. Beinlínis er ýtt undir að krakkarnir leiki sér og átti sig á hlutunum og hvernig þeir virka. Safnið er í borginni sjálfri og auðvelt að komast þangað með strætó eða fótgangandi sé tíminn nægur. Heimasíðan.

√ Litla undralandið ( Miniatur Wunderland )

Þetta ágæta undraland dregur ekki aðeins að sér smáfólk á öllum aldri heldur og þann fjölda fólks sem hefur leikfangalestir að áhugamáli. Skal enginn hlæja að slíku hobbíi því bókstaflega milljónir manna víða um veröld leggja nótt sem nýtan dag við hönnun lesta og leiða, byggingu leiðakerfa og eða söfnun á lestum og öllu þeim tengdu.

Og hér er stærsta lestarmódel heims undir einu þaki og rúlla hér leikfangalestir 1,2 kílómetra leið um borgir og héruð og heimsálfur. Hér aka þær um Alpana, Hamborg sjálfa og gerviborgina Knuffingen auk þess að gera stopp í Bandaríkjunum og Skandinavíu.

Er módelið og sýningin að stækka og breytast dag hvern og eiga lestir í framtíðinni ennfremur að keyra um sléttur Afríku og dali Englands svo dæmi séu tekin um framtíðaráætlanir fyrir undralandið.

Lestir eru hér í tugatali af ýmsum stærðum og gerðum og sjá má glögglega hversu mikilvæg lestarkerfi eru hagkerfum heims. Engin önnur leið er eins örugg og fljótleg við að flytja fólk og vörur milli staða.

Lítið ástæða er fyrir að kíkja ekki hingað því safnið er skammt frá ráðhúsinu og jafnframt helsta verslunarsvæði Hamborgar kringum Mönchebergstraβe.  Jarðlest U3 fer með fólk langleiðina að Baumwall. Heimasíðan.

√ Ítalía hin smáa ( Italia en Miniatura )

Væri keppni í menningarverðmætum heimsins kæmi Ítalía klárlega nálægt toppnum í þeirri keppni. Ekki aðeins er vestræn menning að stórum hluta komin frá Ítalíu heldur er óvíða meira af fornminjum en þar í landi sem varðveist hafa hvað heilllegastar gegnum tíðina.

Það er einmitt þemað í skemmtigarðinum Italia en Miniartura í strandbænum Rimini á austurströnd landsins. Þar á einum bletti má sjá margar af helstu minjum í landinu í smækkaðri mynd og það feykivel gert. Mætti af myndum að dæma halda að um alvöru ljósmyndir sé að ræða svo vel er vandað til verka hér.

Ekki aðeins er hægt að skoða hér Spænsku tröppurnar og nákvæma eftirlíkingu af öllum skurðum Feneyja og að sjálfsögðu Colosseum heldur er líka hægt að virða fyrir sér Péturstorgið án þess að rekast í mann og annan á sjálfu torginu. Alls munu vera tæplega 300 eftirlíkingar af frægum byggingum í garðinum og flestar í skalanum einn á móti 50 eða einn á móti 25.

Hér er líka lestarmódel mikið og stórt og hvorki meira né minna en tíu þúsund plöntur og tré til að gera allt sem eðlilegast. Til að toppa allt saman er líka hér páfagaukagarður og vísindagarður fyrir þá sem nóg fá af litlum eftirlíkingum.

Garðurinn er auðfundinn við ströndina og þangað hægt að komast með strætisvagni númer 8 frá lestarstöðinni í Rímini. Sá vagn fer beinustu leið og kostar fargjaldið aðeins 200 krónur. Heimasíðan.

√ Heimsgarðurinn( Window of the World )

Kínverjar láta sitt ekki eftir liggja á þessu sviði sem öðrum. Í borgunum Shenzhen og Peking í Kína eru það sem margir telja glæsilegusta eftirlíkingarðar heims. Ekki að það sé betur gert en annars staðar en eftirlíkingarnar eru bara öllu stærri og mikilfenglegri en gengur og gerist.

Hér má til dæmis sjá eftirlíkingu af Eiffel turninum í París sem er 108 metrar á hæðina eða einn þriðji af raunverulegri stærð turnsins í París. Sama gildir um margar aðrar eftirlíkingar eins og af Taj Mahal í Indlandi eða Píramídana í Egyptalandi; allt hér er í stærra lagi og því mikilfenglegri en ella fyrir gesti.

Í viðbót við fagrar og einstakar byggingar er hér fjölda frægra listaverka að sjá. Hér er hin fræga Venus frá Míló og Frelsisstyttan er hér að finna líka. Þá er ekki síður merkilegt að labba fram á hafmeyjuna dönsku.

Garðarnir eru sem fyrr segir tveir í tveimur borgum en eins að öllu leyti og eðal að ráðgera stopp hálfan dag eða svo vilji það til að fólk sé á ferð um þessi svæði í alþýðulýðveldinu. Heimasíðan.