Ferðalangar sem koma til smábæjarins Hallstatt í austurrísku Ölpunum eru allflestir á einu máli: fallegri smábær er vandfundinn.

Ekki leiðinlegt að eyða ævidögum í svona þorpi. Mynd Randy Durrum
Ekki leiðinlegt að eyða ævidögum í svona þorpi. Mynd Randy Durrum

Ekki aðeins er bærinn lítill og kyrrlátur heldur stendur hann í snarbrattri hlíð við hið ekki síður fallega Hallstätter vatn. Sannarlega staður til að gleyma lífsins áþján og anda alla leið.

En þessi litli bær, eins og svo margir gamlir evrópskir bæir, geymir dálítið merkilegt leyndarmál.

Hér er nefninlega stórt og mikið hauskúpusafn, Beinhaus, í kofa einum í miðjum bænum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Enginn er beinlínis að auglýsa þetta hauskúpusafn enda strangt til tekið ekki safn heldur grafreitur heimamanna ef svo má að orði komast.

Beinahúsið umtalaða. Mynd megjegyezhető
Beinahúsið umtalaða. Mynd megjegyezhető

Hér liggja í hrúgum hauskúpur tæplega 1400 fyrrum íbúa Hallstatt, margar hverjar skreyttar með nafni viðkomandi og ýmsum táknum öðrum í ofanálag.

Guðlast hugsar einhver en ástæða þessa er sú að sökum legu þorpsins var og er plássið í agnarsmáum kirkjugarðinum vægast sagt takmarkað. Því var brugðið á það ráð fyrr á öldum að grafa fólk aðeins tímabundið, tíu ár eða svo, grafa það upp aftur, henda beinagrindum en koma hauskúpum fyrir á tryggum stað.

Siður þessi stóð allt til ársins 1960 en öllum sem fæddir eru í bænum stendur þetta enn til boða þó flestir kjósi nú að láta brenna sig að þessu lífi loknu.

Ef þú finnur þig í Salzburg er þjóðráð að skjótast til Hallstatt. Þangað er aðeins tæplega 40 mínútna akstur um stórkostlegt hérað landsins×