Með fullri virðingu fyrir hreint ágætum gospelkór Fíladelfíu sem heillað hefur margra með tónlistarflutningi sínum þá bliknar sá kór rækilega við hlið alvöru kóra blökkumanna.

Dýrð sé guði. Gospelkór í Harlem. Mynd Remember forever
Dýrð sé guði. Gospelkór í Harlem. Mynd Remember forever

Og hvar ætli sé betra að upplifa gospeltónlist en þar sem hún kemur beint af skepnunni í Harlem í New York í Bandaríkjunum.

Sérstakar gospel ferðir eru orðnar eitt vinsælasta aðdráttarafl New York fyrir erlenda gesti. Fjöldi ferðaþjónustuaðila bjóða „ekta“ ferðir í einar 60 mismunandi kirkjur í Harlem hverfinu sem hver um sig eiga langa sögu með gospelkórum. Í þeim geta ferðamenn fylgst með guðsþjónustu og hefðbundnum gospel söngvum kirkjukóra og í stöku tilfellum fengið að spreyta sig líka.

Allir vita sem heyrt hafa gospel að sú tónlist getur verið afar heillandi og sönn upplyfting og á ekki að koma á óvart að ferðamenn flestir hafa mun meiri áhuga á kórunum og söngvunum en guðsþjónustunum sem í boði eru.

Slíkar ferðir taka tvær til þrjár klukkustundir að lágmarki og kosta herlegheitin frá 4.500 krónum eftir því hvaða kirkju eða túr er um að ræða. Það eru nefninlega ekki allir kórar fæddir jafnir.

Tveir aðilar sem veita slíka þjónustu og fá báðir toppeinkunnir hjá viðskiptavinum eru Harlem Heritage Tours og Harlem Spirituals.