Fjögurra manna fjölskylda sem ætlar sér í skíðabrekkurnar í Austurríki í vetur þarf að greiða að lágmarki 234 þúsund krónur fyrir flugið eitt og sér hjá Wow Air ef ein taska og skíðabúnaður fylgir með hverjum og einum.

Aukaþjónusta kostar drjúgan skilding. Skjáskot
Aukaþjónusta kostar drjúgan skilding. Skjáskot

Einhverja þarna úti er farið að klæja í puttana að komast í súpergóðar brekkur Alpafjalla þennan veturinn og skiljanlega. Það er auðvelt að fá skíða- eða brettabakteríu þegar dýrindis brekkur og topp aðstaða mætir manni í hvert sinn sem gengið er út af hóteli í Ölpunum.

Wow Air er eina flugfélagið sem býður beint flug til Salzburg í vetur en það er hvað skásti kosturinn til að komast sem fyrst í brekkurnar. Við fyrstu sýn virðist ekki svo dýrt að græja ferð þangað. Flug út þann 9. janúar og heim aftur þann 16. janúar, í tæka tíð fyrir skólabyrjun að nýju kostar fjögurra manna fjölskylduna ekki nema 150 þúsund krónur tæpar miðað við tvo unglinga. Ekkert mjög hræðilegt við það.

En sjokkið kemur um leið og bæta þarf töskum og skíða- eða brettabúnaði með. Fjórar töskur og skíðabúnaður fyrir hvern og einn bætir litlum 84 þúsund krónum við pakkann sem þýðir að flugið eitt og sér skjagar langleiðina upp í fjórðung úr milljón.

Þá á enn eftir að greiða fyrir gistingu, mat, skíðapassa og hugsanlega bílaleigubíl eða rútuferðir til og frá skíðasvæðinu. Gera má ráð fyrir að lágmarksverð á sæmilegri gistingu á betra skíðasvæði kosti vart undir 80 þúsund krónum og sennilega þarf tvö herbergi sem tvöfaldar þá upphæð.

Ergo: viku skíðaferð gegnum Salzburg fyrir fjögurra manna fjölskyldu kostar ekki undir hálfri milljón króna jafnvel þó fólk setji saman sína eigin ferð að öllu leyti.