Í mörgum tilfellum getur það borgað sig fyrir skíðaáhugafólk að taka ekki með sér skíðabúnað þegar farið er í Alpaferðir með Wow Air samkvæmt úttekt Fararheill.

Í Bad Hofgestein er einn aðili sem leigir skíðabúnað og tveir aðrir í nágrannabæjum.
Í Bad Hofgastein er einn aðili sem leigir skíðabúnað og tveir aðrir í nágrannabæjum.

Eins og við höfum áður gagnrýnt þá auglýsir Wow Air „skíðaferðir“ sem eru þó því marki brenndar að engin skíðabúnaður er innifalinn í uppgefnu verði og þaðan af síður er fólki komið alla leið á skíðasvæði.

Ætli ein manneskja að fljúga til Salzborgar og heim aftur með skíðin sín greiðir sú 9.198 krónur fyrir þann munað að lágmarki. Það á þó eingöngu við um skíðin sjálf því einnig þarf að koma skíðaskóm í tösku og fyrir allar töskur þarf að greiða aukagjald líka. Hendi fólk skíða-eða brettaskóm með kostar það í viðbót 7.998 krónur báðar leiðir.

Samanlagt kostar því eina manneskju 17.196 krónur að taka með skíðaskó og bretti eða skíði. Fjögurra manna fjölskyldan þarf því að bæta 68.784 krónum ofan á auglýst verð á fluginu.

En fyrir þá sem ekki vita þá er enginn skíðastaður í Austurríki þar sem ekki er hægt að fá leigð skíði eða bretti og oftar en ekki fleiri en einn slíkur staður. Það á til dæmis við um einn helsta skíðastaðinn sem Wow Air auglýsir; Bad Hofgastein.

Eins og sjá má hér að neðan eru þessir þrír aðilar að bjóða vikuleigu á skíða- eða brettaútbúnaði frá 10.400 krónum miðað við miðgengi dagsins. Ein þeirra býður meira að segja fría leigu á barnaskíðum með leigu á fullorðinsskíðum. Það þarf engan reikniheila til að finna út að slíkt getur margborgað sig. Jafnvel þó ekkert sértilboð sé í gangi græðir fjögurra manna fjölskyldan tæpar þrjátíu þúsund krónur á að leigja skíð á staðnum í stað þess að fljúga með draslið sé miðað við vikuferð.

Það er drjúgur sparnaður. Fyrir utan hversu óþægilegt er að dröslast með skíðabúnað langar leiðir.

Einar þrjár skíðaleigur í eða við Bad Hofgestein í Austurríki
Einar þrjár skíðaleigur í eða við Bad Hofgestein í Austurríki