Því meira sem ferðast er um borgir og héruð þar sem trú hvers kyns á sér djúpar rætur því meira dregur almennt úr virðingu fyrir trú á æðri máttarvöld hjá hugsandi fólki.

Eigum við að ræða þetta eitthvað? Mynd F. Gudiz
Eigum við að ræða þetta eitthvað? Mynd F. Gudiz

Mörg eru dæmin en eitt það versta finnst líklega í smábænum Castrillo de Murcia skammt frá borginni Burgos á Spáni.

Þar fer fram í lok páskahátíðar ár hvert æði sérstakur viðburður svo ekki sé meira sagt. Viðburður sem haldinn hefur verið árlega allt frá árinu 1620 hvorki meira né minna.

Það kallast el cholacho á frummálinu og fer gróflega þannig fram að menn klæddir gulum og rauðum búningum og eiga að tákna djöfulinn sjálfan stökkva yfir öll börn sem fæðst hafa í bænum síðustu tólf mánuðina fyrir páska. Börnin lögð niður á dýnur sem settar eru niður á miðbæjartorginu og svo taka „djöflarnir“ á rás og „hreinsa“ sálir barnanna með stökkum sínum.

Engum sögum fer reyndar af slysum ef stökkin mistakast eða hvort börnin verða þá syndinni að bráð né heldur fer sögum af sérstaklega hreinu hjarta þeirra sem frá bænum hafa komið gegnum tíðina.

Viðburðurinn vekur hins vegar sífellt meiri athygli ferðafólks og um helmingur þeirra sem fylgjast með þessi árin eru útlendingar.

En galið er það.