Gott ef það var ekki Hollendingurinn Vincent van Gogh sem útskýrði málverk sín á þann hátt að margir smáir hlutir gerðu að lokum eitt frábært verk. Skipafélög í skemmtiferðabransanum nota þessa línu líka en á öðrum forsendum.

Feit verðbólga á þjórfé um borð í skemmtiferðaskipum
Feit verðbólga á þjórfé um borð í skemmtiferðaskipum

Eitt af þessu fáránlega við ferðir með skemmtiferðaskipum er þjórfé. Slíkt er nauðsynlegt að greiða aukalega fyrir hvern dag um borð en ekki finnst stafur um þá greiðslu á vefum skipafélaganna né heldur þegar sigling er bókuð. Það er í raun aðeins þegar þú ert að ganga frá borði sem einhver þjóninn pikkar í öxlina á þér og heimtar seðla. Skiptir þá engu máli að hugmyndin með þjórfé er að láta fé af hendi rakna ef viðkomandi er sérstaklega ánægður með þjónustu af einhverju tagi. Það vitaskuld vonlaust að vita fyrirfram nema kannski hjá Þórhalli miðli.

Því skal ekki koma á óvart að þjórfé um borð í skemmtiferðaskipum hækkar ört og nú í lok síðasta árs, 2016, hækkaði Royal Caribbean sinn þjórfjártaxta og var þar með síðasta stóra skipafélagið til að hækka það gjald.

Það þýðir að tveggja vikna túr með skipum Royal Caribbean kostar nú manninn aukalega 1.750 krónur eða um það bil per dag á siglingu. Það hljómar vissulega eins og klink en er það raunin?

Hvort sem þú trúir því eða ekki þarf par sem deilir sardínukáetu í tvær vikur að punga út samtals 49 þúsund krónur í þjórfé ef við miðum við 3.500 krónur á dag. Það í ofanálag við ferðina sjálfa sem væntanlega hefur verið greidd fyrirfram. Þetta verð á auðvitað aðeins við um millistéttarfólk í ódýru káetunum. Hinir sem splæsa á sig svítum með svölum greiða 2.200 krónur per dag per mann. Tveggja vikna sigling í svítu kostar því það par 61.600 krónur í þjórfé.

Að sumu leyti er þetta viðbúið en gallinn sá að enginn segir þér frá þessu gjaldi fyrr en þú ert að stíga frá borði. Þeir sem eru að fara sínu fyrstu ferð gætu því fengið smá sjokk enda sextíu þúsund krónur ekkert dregið upp úr hatti hjá meðalmanni á Íslandi. Það er alvarleg upphæð.

Ekki halda að Royal Caribbean sé eitt um þetta. Öll skipafélögin heimta þjórfé til handa starfsfólki sínu og ef eitthvað, er Royal Caribbean að heimta lægri upphæð en sum önnur skipafélögin.