Innlendir ferðafrömuðir hafa hingað til slefað út í eitt þegar talið berst að mikilli fjölgun skemmtiferðaskipa til landsins. Þar með talin allnokkur skip skipafélags sem nýverið fékk þyngstu fjársekt sem skipafélag hefur fengið síðan Exxon Valdez mengaði Alaskaflóa.

Í ljós hefur komið að skipa skipafélagsins Princess hafa dælt mengaðri olíu beint í hafið um tíu ára skeið. Mynd Princess Cruises
Í ljós hefur komið að skipa skipafélagsins Princess hafa dælt mengaðri olíu beint í hafið um tíu ára skeið. Mynd Princess Cruises

Fjórir komma sex milljarðar króna fer hvergi í bækur sem klink og kanill. Það er sektin sem skipafélagið Princess Cruises þarf nú að punga út samkvæmt dómstólum eftir að hafa laumast til að dæla 15 þúsund lítrum af notaðri olíu beint í sjóinn í breskri landhelgi.

En skipafélagið lét ekki nægja að menga hafið heldur hefur verið sýnt fram á að forráðamenn fengu áhafnarmeðlimi til að ljúga sig frá atvikinu og þegar það gekk ekki kenndu forráðamennirnir sömu áhafnarmeðlimum um allt saman. Það var sem sagt ákvörðun skipastjórnenda að dæla mörg þúsund lítrum af olíumauki í hafið meðan farþegar dönsuðu og djömmuðu frá sér vit og rænu á þilförum fyrir ofan.

En rannsókn breska og bandarískra aðila leiddi í ljós að olíulosun á hafi úti hefur verið regla frekar en undantekning hjá Princess Cruises frá árinu 2005. Sem gerir það langsótt að áhafnarmeðlimum eins skips sé um að kenna þegar loks upp komst.

Hvort skip Princess Cruises sem hingað koma hafi notað tækifærið til að fylla Vestfirði af olíudrullu skal ósagt látið en miðað við það sem fram er komið í málinu kæmi það ekkert á óvart. Enda enginn aðili hér á landi sem fylgist með slíku.

Margar af helstu ferðaskrifstofum landsins selja ferðir með þessu skítakompaníi. Forðist það nema ykkur þarna úti sé nokk sama um mengun heimsins.