Sannarlega er ekki öll vitleysan eins þegar kemur að peningagræðgi og er þó af nógu af taka. Hótelkeðjan Marriott hefur nú viðurkennt að hafa visvitandi lokað fyrir frítt netaðgengi gesta sinna meðan á mikilvægri ráðstefnu stóð í því skyni að fá gesti til að greiða fyrir netsambandið.

Næst þegar fría netsambandið er ekki í boði kann að vera að hótelið sé sjálft að loka fyrir. Mynd Mihai Dragomiresco
Næst þegar fría netsambandið er ekki í boði kann að vera að hótelið sé sjálft að loka fyrir. Mynd Mihai Dragomiresco

Fjarskiptastofnun Bandaríkjanna, FCC, hefur ávítt hótelkeðjuna fyrir tiltækið sem átti  sér stað á einu hótela þess þegar stór alþjóðleg ráðstefna fór fram í sölum þess. Frítt netsamband sem boðið var upp á á ákveðnum stöðum var þá lokað og fólki boðið að greiða í staðinn fyrir netaðgang og það fyrir litlar sjö þúsund krónur á sólarhring.

Til að bæta gráu ofan á svart sögðust forsvarsmenn hótelsins aðeins vera að vernda gesti fyrir óáreiðanlegu netsambandi og harðneituðu að hafa gert eitthvað rangt. Er þetta þó sami netaðgangur og hótelið hefur boðið um margra ára skeið.

Ágætt að hafa þetta í huga næst þegar til greina kemur að gista á einhverju af hótelum Marriott því það er yfirleitt fleiri en eitt skemmt epli í hverri tunnu.