Ekki er öll vitleysan eins. Ferðaskrifstofan Farvel, sem annars býður flottar og öðruvísi ferðir svona almennt, vill fá áhugasama í tíu daga „gönguferð“ um Atlas-fjöll í Marokkó í nóvember. Það væru mistök að grípa þá gæs að okkar mati.

Falleg eru Atlasfjöll Marokkó. En tilvalinn göngustaður er stórt vafaatriði að okkar mati.

Á yfirborðinu virðist ferðin atarna vera sérdeilis fín fyrir fjalla- og göngugarpa og víst er það staðreynd að aldrei hafa gönguferðir hingað og þangað notið meiri vinsælda meðal innlendinga en nú. Í þessu tilfelli beint flug til Marokkó, þremur dögum eytt í borgum og bæjum, og því sjö dagar lausir til göngu á fjöllum fyrir 268 þúsund krónur á kjaft.

Hljómar bara vel að því er virðist.

Alas, hluti ritstjórnar Fararheill hefur reynslu af þvælingi um þessar slóðir yfir vetrarmánuðina og þetta er hreint ekki eins indælt og halda mætti.

Fyrir það fyrsta er Atlas-fjallgarðurinn sá allra stærsti í Marokkó og sá næststærsti í Afríku allri. Víst er þar fallegt víða og forvitnileg fjallaþorp víða að finna. En gallinn sá að hitamunur á degi og nóttu er svo ægilegur að öllum bregður við. Meira að segja harðkjarna göngufólki sem finnst leikur einn að sofa úti í guðsgrænni náttúrunni heima án svefnpoka.

Samkvæmt opinberum tölum er hæsta meðalhitastig í Atlasfjöllum í nóvembermánuði 23 gráður. Lægsta meðalhitastig þann mánuðinn 10 gráður. Ekki svo slæmt það. Ekki ósvipað góðum júlí á hálendinu heima.

Af þeim opinberu tölum tókum við mið þegar við vorum á þvælingi um Atlasfjöllin í desembermánuði og þar af á röltinu töluvert í fjallasölum. Það tók til dæmis fjórar klukkustundir að sólbrenna alvarlega á kollinum þegar hitastigið fór yfir 30 gráðurnar og dynjandi sólin ætlaði allt að kæfa. Svo ekki sé minnst á að kuldinn sem hríslast um fjöllin að næturlagi getur farið langt niður fyrir tíu gráðurnar. Alla leið niður í frostmark jafnvel. Svo grimmt bítur sá kaldi fjandi, sé gist í tjaldi eins og hugmyndin er að hluta til hjá Farvel, að enginn sefur værum svefni alla nóttina vegna nístandi kuldaskrekks.

Þess utan er leiðinlegt að sjá að sumar þær myndir sem finnast á vef Farvel um ferðina eru fjarri því myndir frá Atlasfjöllum eða þeim stöðum sem heimsóttir verða í ferðinni. Ein myndin, að minnsta kosti, er frá fjallabænum Chefchaouen. Sem er gott og blessað nema sá bær finnst í fjallasölum Rif-fjallgarðsins sem er í um 500 kílómetra fjarlægð frá Atlasfjöllum.

Einhvers staðar væri slíkt kallað vörusvik…