Til eru þeir golfáhugamenn sem sjá golfferðalög til Tælands í hillingum. Að mörgu leyti skiljanlegt enda kjörhiti og um tíma þegar íslenska krónan rokkaði sem mest var golfhringur í Tælandi ódýrari en pylsa með öllu.

Það er mikill misskilningur að golf í Tælandi sé ódýrt og þægilegt
Það er mikill misskilningur að golf í Tælandi sé ódýrt og þægilegt

Sá tími er kyrfilega liðinn og reynsla ristjórnar Fararheill er sú að golf í landinu er dýrt, stressandi og almennt ekki þess virði.

Eins og sakir standa nú er vandfundinn völlur sem kostar minna en tólf þúsund krónur fyrir einstakling að spila. Það varlega áætlað því á mestu og helstu ferðamannastöðum eru vellirnir mun dýrari en það og fyrir þá allra flottustu verða menn að gjöra svo vel og punga út 20 til 25 þúsund íslenskum krónum fyrir hringinn.

Sem væri kannski ekki svo fráleitt fyrir hring á toppvelli í góðum félagsskap. En þá gleyma margir að á flestum völlum landsins er gerð krafa um að kylfusveinn, kaddí, sé með í för og ennfremur er víða krafa um að leigja verði golfbíl líka til að flýta leik.

Þessar kröfur hækka verð á hring per manninn auðveldlega um fimm til tíu þúsund krónur í viðbót. Ergo, hringur á meðalvelli kostar því sjaldan minna en 15 til 20 þúsund krónur.

Fararheill fór einn hring á hinum vinsæla Banyon golfvelli við Hua Hin veturinn 2015. Uppgefið verð á vef vallarins reyndist um 14.000 krónur einn hringur sem er fjandi gott enda völlurinn með þeim allra bestu í Tælandi og sumir segja í Asíu allri.

Golfbíll reyndist kvöð þó ekki væri það raunin samkvæmt upplýsingum á sama vef því á annatíma er völlurinn troðinn og það er hlutverk kylfusveinanna, sem þú greiðir fyrir, að pressa fólk áfram viðstöðulaust ef einhver töf verður. Ganga þeir hart fram í því og jafnvel tóku upp bolta ef komið var tvö til þrjú högg yfir par.

Golfbíllinn kostaði 2.800 krónur og kylfusveinninn, sem reyndar voru allir brosandi ungar stúlkur, kostar manninn 1.600 krónur. En þá er enn eftir þjórfé. Kylfusveinsverðið er aðeins það sem greiða skal klúbbnum. Kylfusveinarnir sjálfir þiggja laun sín af þjórfé og talað er um lágmark í því tillliti kringum 2.500 krónur þó öllum sé frjálst að greiða meira ef svo ber undir.

Niðurstaðan á þessum eina velli sú að kylfingur þurfti að greiða alls 19.000 krónur per hring. Það er svipað verð og leika dýrari velli Evrópu eða Bandaríkjanna. Sannarlega þess virði en það segir sig sjálft að sé golfbakterían á háu stigi er kostnaðurinn við golf hér fljótt kominn í háar upphæðir.

Jafnvel þó verð sé ekki að þvælast fyrir fólki er sennilega verst hversu ágengir kylfusveinarnir eru að flýta leik. Það auðvitað helgast af mikilli aðsókn enda enginn skortur á ríkum erlendum gestum sem sjá ekkert eftir tugþúsundum í einn golfhring. En flýtirinn skemmir þá stemmningu sem áhugakylfingurinn er svo hrifinn af. Að taka sér sinn tíma, spila rólega, læra en um leið njóta undarlegra hljóða og útsýnis. Þessu til viðbótar þykir það ekki góður siður að kæla þorsta með bjór eða áfengjum drykkjum á völlum landsins. Það tefur leikinn.

Það er því niðurstaðan að séu menn ekki nokkuð vel fjáðir og ekki síður með tiltölulega lága forgjöf er afar erfitt að njóta golfhrings í Tælandi.

Í stuttu: Golfhringur í Tælandi kostar nú milli 8 og 32 þúsund krónum eftir vinsældum og nálægð valla við ferðamannastaði. Þá á eftir að greiða fyrir tilskildan kylfubera, aldrei lægri upphæð en 1.200 krónur, og golfbíl, ekki minna en 1.400 krónur, og hangs eða slökun er illa liðin.

Leave a Reply