Það hlaut að koma að því! Pattaya í Tælandi sem um 20 ára skeið hefur verið númer eitt, tvö og þrjú hvað kynlífsferðamennsku snertir virðist loks hafa fengið alvarlega samkeppni. Frá indverska héraðinu Góa.

Bestu strendur Indlands eru sagðar vera í Góa héraðinu og það eru fleiri útlendingar að uppgötva ár hvert. Því miður sækja margir þeirra til Góa í ódýrt kynlíf með konum og jafnvel börnum. Mynd Alessandro Baffa
Bestu strendur Indlands eru sagðar vera í Góa héraðinu og það eru fleiri útlendingar að uppgötva ár hvert. Því miður sækja margir þeirra til Góa í ódýrt kynlíf með konum og jafnvel börnum. Mynd Alessandro Baffa

Hefur kynlífstúrismi blómstrað víða í Góa héraði síðustu misserin og sérstaklega eftir að bann var lagt við vafasömum dansklúbbum ofar á indversku ströndinni við borgina Mumbai. Við það fluttu þúsundir hórmangara sig um set og Góa sem eytt hefur tugum milljóna síðustu tíu árin til að kynna borgina sem ákjósanlegan dvalarstað ferðamanna varð fyrir valinu.

Fyrir utan að þetta séu slæmar fréttir fyrir sælgætisverksmiðjuna Góa eru ráðamenn á Indlandi ekki alveg vissir ennþá hvort þetta sá jákvætt eða neikvætt. Staðreyndin er jú að þó ferðamenn komi í annarlegum tilgangi koma þeir líka með töluverðan pening í inn í landið og Góa er óopinberlega talið spilltasta hérað Indlands.

Það tvennt þýðir að mikið má ganga á áður en löggæsla er efld sem hefur einmitt ekki verið raunin síðustu árin þó yfirvöld hafi vitað í hvað stefndi að því er fram kemur í grein Agence France-Presse um málið.

Alvarlegra þó er að þúsundir barna og kvenna eru fyrir vikið í kynlífsþrælkun í héraðinu og fer fjölgandi í takt við fjölgun ferðamanna. Í síðustu viku voru níu einstaklingar handteknir fyrir að halda fjórtán stúlkum frá Nepal í fjötrum sem kynlífsþrælum á einum einasta bar í héraðinu.

Kaþólski biskupinn í Góa hefur látið hafa eftir sér að Góa sé orðin paradís barnaníðinga og sömuleiðis kallað eftir harðari aðgerðum gegn slíku en án árangurs.

Um 3,8 milljónir ferðamanna sækja nú Góa heim ár hvert sem er dropi í hafið miðað við þann fjölda sem enn heimsækir Pattaya í Tælandi. En miðað við að rúmlega ein milljón ferðamanna sótti Góa heim árið 2000 er um feita fjölgun að ræða á tæpum 20 árum. Ekkert bendir til annars en vinsældir Góa muni áfram aukast.

Leave a Reply