Enginn getur litið alvarlega til framtíðar án þess að draga lærdóm af liðinni sögu. Í því ljósi á enn eftir að koma í ljós hvort miklar breytingar á íslenska flugmarkaðnum eiga eftir að verða okkur til góða eður ei.

Upp, upp mín sál og allt mitt geð. Fararheill sendir lesendum og ferðafúsum góðar nýárskveðjur

Stærstu tíðindi ársins gagnvart okkur ferðasjúkum voru annars vegar yfirtaka Wow Air á sínum helsta samkeppnisaðila Iceland Express og hins vegar tilkoma tveggja stórra og metnaðarfullra erlendra lággjaldaflugfélaga; easyJet og Norwegian sem fljúga allt árið.

Tíminn einn mun leiða í ljós hvort ferðaglaðir njóti betri kjara hjá Wow Air en þegar Iceland Express veitti þeim samkeppni. Þó engin formleg úttekt hafi verið gerð þá er það mat ritstjórnar Fararheill að samkeppni í flugi til og frá landinu hafi aldrei verið meiri en í vor og sumar og allt fram að yfirtöku Wow í október.

Ýmis dæmi er hægt að taka því til staðfestingar.

Í ágúst kynnti Wow Air tilboð á flugi til Berlínar og fékkst flug aðra leiðina um tveggja mánaða skeið á 13.900 krónur með öllum sköttum og gjöldum og þetta er áður en félagið hóf að taka sérstakt farangursgjald. Eftir yfirtökuna hefur ekki fengist betra verð til Berlínar aðra leiðina en á 14.900 krónur en þá bætist við sérstakt 900 króna bókunargjald og sérstakt 2.900 króna gjald á hverja tösku. Allt þetta var innifalið i ágúst og september til Berlínar en allra lægsta raunverð nú er 18.700 krónur. Það er 4.800 króna hækkun aðra leiðina eða sem nemur 35 prósenta hækkun. Fátt annað í landinu hefur hækkað um 35 prósent á einu einasta hausti en á sama tíma hefur eldsneytisverð lækkað og engin stórtíðindi orðið nema að Iceland Express er horfið af sjónarsviðinu. Tilviljun?

Tonn er af slíkum dæmum sem við gætum talið upp og nægir að fletta í fréttasafni Fararheill frá vori eða sumri til að sjá tilboðsverð sem  ekki sjást lengur. Við höfum líka ítrekað fjallað um stöðuna á flugmarkaðnum áður en Wow Air kom til sögunnar og rannsóknir hafa sýnt að Icelandair og Iceland Express skiptu markaðnum snyrtilega á milli sín og samkeppni í þágu neytenda var nánast eingöngu bundin við flug til London eða Kaupmannahafnar um árabil.

Ákveðin vonbrigði hafa orðið með easyJet og Norwegian. Tíðni ferða beggja aðila er of lág til að við njótum þess virkilega í súperdúper tilboðum. Oftar en ekki eru fargjöld þessara flugfélaga dýrari en hægt er að fá hjá Icelandair eða Wow Air. Þetta mun líklega breytast til batnaðar á nýju ári því bæði flugfélögin hafa tilkynnt um aukna tíðni ferða á nýju ári.

Þá vakti líka athygli Fararheill hversu fáir Íslendingar voru meðvitaðir um öll þau flugfélög sem hingað flugu í sumar og munu líklegast gera aftur næsta sumar. Flugfélög eins og Airberlin og Transavia sem hingað flugu reglulega á fínum verðum en hvorugt þessara né annarra voru mikið að auglýsa hérlendis. Kannski það breytist líka því samkvæmt reynslu ritstjórnar eru færri en fleiri sem gera sér grein fyrir að fleiri möguleikar eru í boði yfir sumartímann en við eigum að venjast.

Fátt nýtt merkilegt var í boði íslenskra ferðaskrifstofa eins og Fararheill hefur ítrekað gagnrýnt. Ein mest lesna fréttin okkar á árinu var um að vetrarbæklingur Heimsferða þennan veturinn var sem snýttur hundrað prósent úr vetrarbæklingi ferðaskrifstofunnar síðasta vetur. Sömu ferðir, sömu staðir en hærri verð. Ekki til marks um mikinn metnað en vissulega jákvætt frá endurvinnslulegu sjónarmiði.

Þá er verðlagning ferða hérlendis almennt verulega úr takti við það sem gerist í nágrannalöndum og við greiðum oft fáránlega mikið meira en aðrir. Ritstjórn þykir ljóst að eitthvað sé að hjá ferðaskrifstofunum. Annaðhvort þurfi öflugri fyrirtæki til að bjóða betur eða að græðgi er að fara með fyrirtækin. Þetta er sérstaklega skrýtið þegar haft er í huga að hefðbundnar ferðaskrifstofur eiga mjög undir högg að sækja nú þegar hver sem er getur pantað draumaferðina gegnum netið. Þær sem ekki ná til viðskiptavina með almennilegum tilboðum aftur og aftur munu verða undir og á endanum fara yfir um.

Í þessu samhengi er áhugavert að vita að enginn fjárfestir hafði áhuga að kaupa stærstu ferðaskrifstofu landsins af Pálma Haraldssyni nú í vetur. Úrval Útsýn og dótturfyrirtækin Plúsferðir og Sumarferðir seldust ekki þrátt fyrir tilraunir sem er makalaust nú þegar yfirfullt er af fólki með nóga peninga en ekkert að gera við þá.

Að þessu sögðu þá fagnar ritstjórn tilkomu Wow Air. Engin spurning að fyrirtækið hafði veruleg góð áhrif í samkeppnislegu tilliti og reyndar of góð því helsti samkeppnisaðila fór strangt til tekið flatt á hausinn. Vonandi er að þó fækkað hafi í bransanum að yfirmenn Wow hafi viðskiptavini sína áfram í forgrunni og ekki að féþúfu.

Við fögnum mjög nýjum áfangastöðum Icelandair á næsta ári. Sá einn veit er víða ratar segja Hávamál og klárt að einhverjir geta bætt í þann sarpinn í beinu flugi til Rússlands og Alaska í Bandaríkjunum á næsta ári.

Við fögnum áframhaldandi flugi nýrra erlenda aðila hingað til lands jafnvel þó aðeins sé um flug yfir háannatímann að ræða.

Komdu fagnandi 2013.

Sendum lesendum og öllum ferðaglöðum yfirmáta frábærar kveðjur á þessum tímamótum.

Ritstjórn Fararheill.is