Þær skipta hundruðum ljúfar lúxussiglingar sem heilla frostbitinn Íslendinginn núna sem aðra daga enda verður lífið oft ekki yndislegra en um borð í lúxusskipi á framandi og fjölbreyttum slóðum. Við hnutum þó um eina sérstaklega magnaða sem gæti komið einhverjum í meira jólastuð en ella.

Stemmari hjá þessum og kannski líka hjá þér og þínum. Mynd Jamieson Wieser
Stemmari hjá þessum og kannski líka hjá þér og þínum. Mynd Jamieson Wieser

Þar er um að ræða vikusiglingu með fullu fæði niður og upp mexíkósku rivíeruna um borð í hinu fræga skipi Queen Mary. Það vissulega komið til ára sinna en fyrir vikið er hér saga við hvert fótmál sem er nú stundum skemmtilegra en hitt. Komið er við í Cabo San Lucas, Puerta Vallerta og Mazatlan og alls staðar hægt að stíga frá borði og prófa gestrisni heimamanna.

En því fer fjarri að umrædd ferð sé aðeins siglingin ljúfa. Í sama túr er þriggja daga dvöl í þremur af mest spennandi borgum Bandaríkjanna. Los Angeles, San Francisco og Las Vegas eru allar heimsóttir og þar dvalið á góðum hótelum. Allar ferðir á milli plús farangur innifalinn í verðinu.

Hvað skyldi svo slíkur sautján daga risatúr kosta? Frá Manchester eða London fæst ferðin á 296 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman og innrikáetu í apríl eða maí á næsta ári. Bætum við 25 þúsund krónum á mann til þessara borga frá Íslandi og heim aftur og heildarkostnaður á par eða hjón alls 642 þúsund krónur.

Það er töluvert lægra verð en innlendar ferðaskrifstofur eru að bjóða í góðar, lengri siglingar héðan og munar í sumum tilfellum hundruðum þúsunda.

Kíktu á þetta hér.