Þau skipta þúsundum litlu vinalegu þorpin og bæirnir um gervalla Ítalíu. Flest þeirra eiga þó sameiginlegt að þar eru ferðamenn á vappi og oft helst til margir til að raunverulega sé hægt að taka inn smábæjarstemmninguna. Minnst einn staður er þó æði frábrugðinn.

Ein nokkurra dúndurstranda við Reggio di Calabria. Hér nóg pláss. Mynd Tourism Italy
Ein nokkurra dúndurstranda við Reggio di Calabria. Hér nóg pláss. Mynd Tourism Italy

Þó klisjukennt sé að segja er alls óhætt að segja að tíminn standi kyrr í borginni Reggio di Calabria sem staðsett á á tá Ítalíu og örskammt frá Sikiley í beinni sjólínu. Þetta er syðsti hluti landsins að frátöldum nokkrum eyjum á borð við Lampedusa og því hér sól og hitasæla lungann úr árinu.

Þess vegna á ekki að koma á óvart að strendur hér eru fimm stjörnu ekkert síður en í Grikklandi eða á Spáni og nokkuð hæðótt og forvitnilegt landslag meðfram strandlengjunni.

En það kemur töluvert á óvart hversu fáir ferðamenn spóka sig hér og það jafnvel á háannatíma. Nógu fáir til að fá þennan eftirsótta smábæjarsjarma beint í æð þó hér sé um að ræða borg sem telur tæplega 200 þúsund íbúa.

Þetta helgast mikið til af því að Reggio hefur ekkert gert til að koma sér á kortið. Aldrei nokkurn tíma. Staðurinn er nánast utan þjónustusvæðis fyrir erlenda ferðamenn. Flug hingað niðureftir er tiltölulega dýrt þó reyndar lággjaldaflugfélög bjóða hingað ferðir nú til dags. Hér er töluvert af fornum athyglisverðum minjum og stærsta dómkirkja héraðsins hér staðsett. Hér hittir fólk heimamenn á kaffihúsunum og veitingastöðunum en ekki aðra túrista. Á tímum þegar túrismi er víða orðinn of mikið af því góða er það eitt og sér ómetanlegt.

Hér hafa heimamenn líka algjörlega gefið frat í verslun og viðskipti yfir hádaginn og nánast öll borgin fer í frígír í þrjár stundir hvern einasta dag þegar síesta er tekin. Þetta er síesta eins og hún var á Spáni fyrir 30 árum eða svo.

Það verður þó að viðurkennast að hér er svo sem ekki mikið við að hafa annað en að sleikja sólina og henda áhyggjum að heiman fyrir róða. Verslanir eru fáar miðað við stærð borgarinnar og ótrúlega lítið af þekktum keðjuverslunum. Þá eru verslanir dýrar þó héraðið sé eitt það fátækasta í landinu.

Hvað okkur varðar er ekki amalegt að finna svona afslappað fólk á stað sem ætti að öllu eðlilegu að vera einn „heitasti“ áfangastaður Ítalíu. En það er jú nóg af þeim.