Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Það gamla orðatiltæki kemur upp í hugann nú þegar ný og fersk ferðaskrifstofa kemur stormandi inn á markaðinn á Íslandi.

Gaman að þessu. Gaman ferðir langfyrstir með ferðapakka á EM 2016.
Gaman að þessu. Gaman ferðir langfyrstir með ferðapakka á EM 2016.

Sú heitir Gaman ferðir og er að hluta í eigu Skúla Mogensen, eiganda Wow Air, auk annars. Þar á bæ eru menn ekki að sitja með hendur í skauti og bíða eftir að síminn hringi.

Okkur vitandi er það eina innlenda ferðaskrifstofan sem er þegar komin með ferðapakka á Evrópumótið í knattspyrnu á söluskrá og skráning í þær ferðir hafnar. Lofað er nákvæmum ferðalýsingum og verði á pökkum strax næstu sólarhringa.

Fyrirtaks viðbrögð við einhverju stærsta andartaki í íslenskri knattspyrnu og efalítið þúsundir þarna úti sem vel gætu hugsað sér að berja íslensku leikmennina augum í Frakklandi næsta sumarið.

Til samanburðar finnum við ekki staf um EM 2016 eða íslenska landsliðið á vefum Úrval Útsýn, Heimsferða eða Icelandair. Hjá ferðaskrifstofunni Vita, að fullu í eigu Icelandair, er starfsfólk reyndar að koma sér í gírinn. Samkvæmt heimasíðu þeirra er staffið í „óða önn að undirbúa ferðir“ en þeir geta ekki „lofað því að ferðirnar verði ódýrastar„ eins og þar stendur. Búast má við ferðapökkum á næstu vikum.

Þess má geta að Gaman ferðir eru með flest atkvæði sem BESTA ÍSLENSKA FERÐASKRIFSTOFAN samkvæmt yfirstandandi könnun Fararheill. Af tæplega níu hundruð telja 32 prósent Gaman ferðir standa sig best.