F yrir margt löngu var gríska eyjan Krít orðin svo gegnsósa af fjöldatúrisma að allur sjarmi þessarar indælu eyju var á dánarbeði. Það hefur tekist að snúa því við svo um munar.

Grísku eyjarnar eru hver annarri yndislegri. Mynd Theophilus Papadoupolos

Grísku eyjarnar eru hver annarri yndislegri. Mynd Theophilus Papadoupolos

Einn angi af breyttum áherslum eyjaskeggja er að hér hefur fjöldi veitingastaða skipað sér í hóp með svokölluðum „slow food“ stöðum. Út með hraðsuðurétti og skyndibita og inn með það sem gerði eyjuna og lífið hér heillandi í upphafi; afslöppun og rólegheit.

Hluti af því er að taka langan tíma í mat og læra á nýjan leik að njóta félagsskapar við matarborðið ekki síður en matarins sjálfs. Það kunna íbúar við Miðjarðarhafið manna best.

Það er því ekki úr vegi, hafi fólk áhuga á slíkum stöðum að nefna til sögunnar þrjá slíka veitingastaði sem fá afbragðs einkunnir. Þeir eru:

♥  NTOUNIAS  >> Þessi fjölskyldustaður er fjölsóttur af heimamönnum sjálfum sem alltaf er ávísun á góðan mat alls staðar. Svo mjög reyndar að vænlegt er að bóka borð fyrirfram. Staðurinn finnst í smábænum Drakona skammt frá Therissos. Á boðstólnum er eingöngu eyjaskeggjafæði.

♥  THALASSIO AGERI  >>  Útgerð hefur verið og er mikilvæg íbúum á Krít og þar sem fiskimenn koma með afla að landi daglega má slá föstu að finna má fimm stjörnu sjávarréttastaði víða. Einn slíkur þykir fremstur jafningja og ekki slæmt heldur að hann stendur nánast ofan í höfninni í gamla bænum í Chania.

♥  GRAMBOUSSA  >>  Þriðji staðurinn þar sem eingöngu eru á boðstólnum innlendir réttir gerðir úr hráefni héðan úr eyjunni í flestum tilvikum. Þessi er líka á frábærum stað skammt utan við bæinn Kalivyani og útsýni hér gerir góðan mat betri.