Um árafjöld var töfraorðið hérlendis einkavæðing, einkavæðing og einkavæðing en þó ekki endilega í þessari röð. Enn lifa einkavæðingadraumar í hjörtum ýmissa þingmanna og hver veit nema einn daginn verði hér allt einkavætt í tætlur.

Fyrir fimmtán mínútna lestarferð frá Heathrow og inn í London þarf nú að greiða litlar 4.200 krónur.

Í því ljósi er athyglisvert að skoða landslagið í Englandi þessa stundina en stjórnvöld í tíð Tony Blair einkavæddu stóran hluta af lestarsamgöngum landsins og var það ferli reyndar hafið fyrir hans tíma. Stjórn David Cameron var og er ennfremur fylgjandi slíku og er nú svo komið að nánast allt lestarkerfi landsins er í höndum einkaaðila.

Gott og blessað eða hvað?

Ekki alveg. Tölur ferðamálaráðs Englands sýna að erlendir ferðamenn eru að mestu hættir að fara í lestum um landið og þarlendar ferðaskrifstofu margar hættar að bjóða slíkar ferðir. Ástæðan er mikill kostnaður sem er synd því landið allt er æði fallegt á mörgum stöðum og mikill sjarmi því samfara að njóta þess í þægilegri lest.

Enn verra er að nú greina breskir miðlar frá því að nú um áramótin hafi öll lestarfyrirtæki hækkað fargjöld sín tíunda árið í röð og segir í Guardian að nú sé einfaldlega orðið of dýrt fyrir hinn almenna Breta að ferðast með lest. Það á, merkilegt nokk, sérstaklega við þar sem samkeppnin er þó mest í London og nágrenni en þar berjast allnokkur lestarfyrirtæki um sömu bitana. Annað virt blað, Independent, vísar í rannsóknir sem sýna að hvergi á byggðu bóli í Evrópu eru lestarferðir jafn dýrar og í Bretlandi.

Dæmi er tekið af fargjaldi fyrir einn frá London til Norwich og til baka sem kostar nú á almennu farrými ódýrast tæpar 23 þúsund krónur. Ferðin aðra leið tekur innan við tvær stundir.

Sé dýrt að þvælast með lest um lendur Englands er ekki síður dýrt að taka einn lestarrúnt frá Heathrow flugvelli og inn í borgina svo dæmi sé tekið. Þá skal punga út núna 4.200 krónum aðra leiðina á allra ódýrasta fargjaldi sem keypt er áður en lagt er af stað. Miði fram og til baka fæst ódýrast á rúmar sjö þúsund krónur. Lestin er fimmtán mínútur á leiðinni aðra leið.

Fimmtán mínútur er rösklega sami tími og það tekur að ferðast með ríkislest frá Schiphol flugvelli í Hollandi og inn í Amsterdam borg. Og hvað eru Hollendingarnir að heimta fyrir þann munað á þessu herrans ári? Jú, 750 krónur aðra leiðina og 1.400 fram og aftur.

Fyrir okkur ferðaþyrsta er London sífellt að færast fjær og fjær öðrum en þeim sem eiga hrúgur af seðlum.