Það verður að teljast hreint makalaust að árið 2015 séu ennþá 60 til 70% prósent allra hótela heimsins sem heimta sérstakt gjald fyrir netaðgang.

Hvort sem fólki líkar betur eða verr er raunin sú að netaðgengi er fyrir alllöngu orðið nauðsynlegt nútímafólki og ekki mjög margir ferðast nokkurn skapaðan spöl án þess að hafa spjaldtölvur, snjallsíma eða gömlu góðu fartölvurnar með í för og slík tæki eru nánast tilgangslaus ef ekkert er netið.

En þó ókeypis net fáist víða á strætum og torgum stórborga, veitingastöðum, verslunarmiðstöðvum og mikið til alls staðar þar sem fólk kemur saman er ein atvinnugrein sem berst hatrammlega gegn slíkri sjálfsagðri þjónustu: hótel og gististaðir.

Af stærstu hótelkeðjum heims er aðeins ein sem býður öllum, háum sem lágum, upp á netaðgang þeim að kostnaðarlausu og sú þjónusta var að taka gildi fyrr í þessari viku. Þar er um að ræða hótel í eigu Hyatt en reyndar hængur líka því vilja fólk alvöru hraða kostar það aukalega.

Allar aðrar stórar keðjur; Hilton, Marriott, Starwood og InterContinental fara enn fram á greiðslu fyrir netsamband og það oft á tíðum æði drjúga greiðslu. Einu undantekningarnar á því ef viðkomandi er í sérstökum vildarklúbbum hótelanna en aðild að þeim kostar skildinginn líka svo ekki er hægt að segja að netið sé frítt þar heldur.

Meðal minni hótela virðist vera vakning á kröfunni um netsamband og það fólki að kostnaðarlausu. Vefmiðillinn Skift greindi frá því um áramótin að þeim fækkaði mjög hótelum í Bretlandi sem krefðust sérgreiðslu fyrir aðgang að neti. Engu að síður mikill meirihluti hótela þar sem enn fara fram á slíkt.