Ók, sennilega ekki margir þarna úti sem dreymir um ferð til lítillar kaldrar eyju lengst í ballarhafi. Það er jú nógu kalt á farsæla Fróni svona heilt yfir. En ef lesendum okkar dreymir um að skoða hina undarlegu norsku eyju Svalbarða þá er tíminn næsta vor 🙂

Svalbarði er ljúfur áfangastaður fyrir forvitið ferðafólk. Ekki hvað síst snemma á vorin.

SAS er þessa stundina að bjóða sérdeilís príma fargjöld frá Osló til Svalbarða næsta vor allt niður í ÁTJÁN ÞÚSUND KRÓNUR fram og aftur. Flugið frá Osló og þangað aftur er rúmlega sex klukkustunda pakki og því óhætt að fullyrða að verðið er hreint fyrirtak. Plús auðvitað að við komumst auðveldlega til og frá Osló á þessum tíma fyrir 20 kall í ofanálag.

Hvað í ósköpunum er hægt að gera þar annað en láta sér leiðast kann einhver að spyrja?

Jú, Svalbarði að koma undan vetri er barasta stórkostlegur staður. Allt að lifna við eftir harðan vetur og þar með taldir tiltölulega frosnir íbúarnir.

Mælum hundrað og fimmtíu prósent með túr hingað. Hér leiðist ENGUM þrátt fyrir að ekki sé mikið við að vera. En þú kynnist líka hinu undarlegasta fólki og hittir kannski fyrir einn og einn hvítabjörn…