Enginn skortur er á forvitnilegum stöðum og eða hlutum að sjá og fræðast um í Barcelona og nágrenni. Borgin ein og sér þvílíkur lífsins suðupottur að forvitnir gætu ílengst um áraraðir og samt daglega fundið eitthvað nýtt og spennandi.

Bærinn Horta de Sant Joan stendur hátt í Katalóníu og er sennilega eina þorp heims með sitt eigið Picasso listasafn. Mynd Juan Manuel Serarols
Bærinn Horta de Sant Joan stendur hátt í Katalóníu og er sennilega eina þorp heims með sitt eigið Picasso listasafn. Mynd Juan Manuel Serarols

En stundum vill gleymast að í Katalóníu héraði er ekki síður skemmtilegt að þvælast stefnulaus um og rekast líka á skemmtilega hluti, staðreyndir eða staði með reglulegu millibili. Staði á borð við bæina Reus, Horta de Sant Joan og Mont-roig.

Hvað skyldu þessir þrír bæir eiga sameiginlegt? Jú, allir þrír voru dvalarstaðir einhverra allra frægustu sona Spánar um lengri eða skemmri tíma og allir höfðu þeir djúp áhrif á viðkomandi menn.

Einstaklingarnir í þessu tilfelli eru hinn magnaði Antoni Gaudí sem sekur er um að hanna og byggja einhver mögnuðustu mannvirki heims í Sagrada Familia, í hinum  merkilegu íbúðarhúsum sínum á borð við Casa Batlló og ekki síst lystigarð á borð við Parc Güell. Staðir sem hver einasti maður sem heimsækir Barcelona ætti að þekkja.

Annar er listmálarinn og lífskúnstnerinn Pablo Picasso hvers ævi var ekkert minna en stórkostlegt ævintýri. Að lesa bækur um karlinn og lífshlaup hans er að lesa um mann sem naut lífsins út í æsar hvern einasta dag. Verk Picasso þarf varla að kynna.

Þriðja stórstirnið í hópnum er hinn merkilegi listamaður Joan Miró sem kannski er hvað minnst þekktur utan Spánar en á meira skilið. Stórkostleg verk eftir hann er að finna víða í borgum og bæjum Spánar þó nafni hans sé mest haldið á lofti í Barcelona þar sem hann fæddist og í Palma á Mallorca þar sem hann eyddi síðustu æviárunum.

Ljúf er hún og þokkalega létt á pyngjunni líka. Borgin Reus er óvitlaus áfangastaður sólarhring eða svo á Spáni. Mynd Aris Gionis
Ljúf er hún og þokkalega létt á pyngjunni líka. Borgin Reus er óvitlaus áfangastaður sólarhring eða svo á Spáni. Mynd Aris Gionis

Bærinn Reus er reyndar löngu orðinn að borg með sína hundrað þúsund íbúa og sinn eigin flugvöll en það er á flugvöllinn hér sem mörg helstu lággjaldaflugfélög Evrópu venja komur sínar með farþega.

Þrátt fyrir að hafa upp á töluvert mikið að bjóða stoppa fæstir lengur en augnablik hér heldur halda rakleitt áfram til Barcelona eða á strandstaði héraðsins. Þeir sem doka við gætu komist að því að það var hér sem Antoni Gaudí fæddist og ólst upp til átján ára aldurs. Þó engin verk hans finnist hér og engar byggingar fari sérstaklega í bækur fyrir fegurð er Reus þægilega stór. Það er að segja að hún er of lítil og inn í landi til að trekkja að tugþúsundir ferðamanna en nógu stór og lifandi til að hér er gott að setjast niður á bar eða kaffihúsi og samt njóta lífs og gleði án þess að hreyfa legg né lið. Heimamenn líka forvitnari um þá sem hér gefa sér stund en víða annars staðar og stutt í gott spjall tali fólk einhverja spænsku. Aðeins er klukkustundar keyrsla frá Barcelona og tíu mínútur á næstu strönd.

Þorpið Horta de Sant Joan er öllu innar í landinu en Reus og stendur mun hærra uppi í því sem kallast Terra Alta í Katalóníu undir Els Ports fjöllum. Það er hvorki stórt né mikið um sig en það stendur hátt á hæð sem gefur ágætt útsýni til austurs yfir sveitir héraðsins. Ekki síður jákvætt fyrir sælkera að hér er stunduð talsverð vínrækt og vínekrur hér um allar trissur. Kannski vín þorpsbúa hafi ollið því að hingað, af öllum stöðum, kom Pablo nokkur Picasso eitt sinn en líklegra þó að hreint fjallaloftið hafi haft afgerandi áhrif þar á. Listmálarinn frægi kom sér hér fyrir til aðhlynningar þegar hann þjáðist snemma af skarlatssótt. Af henni náði kappinn sér fljótt og kom hingað reglulega í kjölfar þess. Seinna lét hann hafa eftir sér að allt sem hann hefði lært um ævina hefði hann lært í Horta og nokkrar frægustu mynda hans eru af þorpinu og nágrenninu. Það tekur tvær og hálfa klukkustund að komast hingað frá Barcelona akandi en þá er líka ekið um einhverja fallegustu náttúru Katalóníu svo engum þarf mikið að leiðast.

Merkilegt nokk. Spænsk strönd sem ekki er troðin öllum stundum finnst í Mont-roig. Mynd jordi.martorell
Merkilegt nokk. Spænsk strönd sem ekki er troðin öllum stundum finnst í Mont-roig. Mynd jordi.martorell

Mont-roig del Camp er annað smáþorp í Katalóníu sem tengist stórvesírum landsins. Þorpið er þekkt sem þorpið milli fjalls og fjöru enda jafn stutt í fjallgöngu og niður á Miami Platja ströndina. Sem gerir staðinn sérstaklega heillandi fyrir barnafólk. Þorpið sjálft er gamalt og lítið og óþolinmóðir fá líklega nóg af á skömmum tíma enda hér ekki allt iðandi öllum stundum þó vissulega sér hér ferðafólk á vappi yfir sumartímann. Margir Spánverjar segja að hvergi á Spáni sé að finna betri ólífuolíur en eru framleiddar í þessu litla þorpi. Hingað kom í byrjun 20. aldar hinn merki Joan Miró og hreifst svo mjög að hér dvaldi hann annars lagið um áratugaskeið eða þangað til hann á efri árum kom sér endanlega fyrir í Palma á Mallorca. Mörg hans þekktustu verk vann hann í húsi fjölskyldunnar hér og sjálfur vildi hann meina að hver einasta hugmynd að verkum sínum hefði kviknað á þessu svæði. Aðeins er spottakorn hingað frá Reus og rúm klukkustund frá Barcelona í bíl.

Óhætt er að mæla með dagsferð um þessar slóðir vilji fólk stíga út fyrir Barcelona og þessum hefðbundnu strandstöðum sem finnast í héraðinu. Ofangreinda staði má alla heimsækja á góðum degi þó eflaust sé meira gaman að eyða meiri tíma en klukkustund í hverjum. Lítt gaman að ferðast á fartinu.

Hótel og gististaðir finnast auðvitað um allt og lítið mál að finna gistingu á allra lægsta verðinu á bókunarvef Fararheill eins og endranær.