Þó laufin séu ekki alveg farin að falla ennþá fer ekki framhjá neinum að enn eitt sumarið er á enda komið á Fróni og þá vill hjarta ferðaþyrstra oft byrja að banka.

Haustin eru besti tími ársins til ferðalaga erlendis að margra mati og þannig hægt að lengja sumarið og stytta veturinn sem fer miður í marga.

Ferðaskrifstofurnar hafa verið grimmar að auglýsa ferðir sínar þetta haustið sem endranær. Þó ritstjórn Fararheill.is standi fast við þá skoðun sína að almennt sé of lítið og dapurt úrval mismunandi ferða í boði má þó inn á milli finna forvitnilega pakka.

Við tókum saman nokkrar þær ferðir sem ritstjórn þykir hvað forvitnilegastar þetta haustið í engri sérstakri röð og miðað við verð á mann. Ekki er tillit til neins annars en forvitnilegheita við þessa úttekt og fólk hvatt til að kynna sér aðrar ferðir sem í boði eru þetta haustið hjá fleiri ferðaskrifstofum en hér eru nefndar.

  • Old Car á Daytona / Icelandair / 22. til  30. nóvember / 166.300 krónur

Gamlir bílar galore í Daytona á Flórída þar sem hátíðin Turkey Run fer fram. Þar hittast bílaáhugamenn í þúsundavís með bíla sína gamla og merkilega og njóta samvista við svipað þenkjandi fólk. Ekki verra að veðurfar í Flórída leikur við hvers manns kinn og hafi konan minna en engan áhuga á bílum er gnótt verslana um allt.

  • Grand Bútan / Óríental / 11. til 22. október / 687.000 krónur

Fyrsta skipulagða hópferð ferðaskrifstofunnar Óríental til Bútan í Asíu. Hún kostar sitt en um tólf daga ferð er að ræða og um víðan völl farið. Konungsríkið Bútan er landlæst land við austurenda Himalaya fjallgarðsins og allajafna ekki á ferðaáætlunum vesturlandabúa. Klárlega töluvert ævintýri fyrir alla sem með fara og stoppað í Bangkok í Tælandi á leiðinni.

  • Fjögurra borga ferð / Heimsferðir / 20. til 24. október / 134.800 krónur

Ritstjórn er til efs að nokkurn tíma áður hafi verið boðið upp á ferðir til borgarinnar Györ í Ungverjalandi. Sú er sannarlega verð skoðunar og ekki skemmir stopp í Búdapest, Vín og Bratislava í leiðinni en Györ er á landamærum Ungverjalands, Slóvakíu og Austurríkis. Kannski helst að setja megi út á tímann því þarna er nokkuð kalt á þessum árstíma.

  • Ævintýraferð til Kenía / Vitaferðir / 4. til 19. nóvember / 596.900 krónur

Vöggu mannkyns verður hver að heimsækja einu sinni um ævina. Alvöru safarí og stopp í höfuðborginni Naíróbí og á ströndinni við Mombasa. Allt það besta í landinu í einni einustu ferð og enginn skortur á sól og blíðu. Ferðin er farin í samvinnu við Afríku-Ævintýraferðir sem mikla reynslu hafa af ferðum í þessari forvitnilegu heimsálfu.

  • Aðventuferð til Dresden / Úrval Útsýn / 28. til 5. desember / 199.300 krónur

Dresden er ein merkilegasta borgin af mörgum merkilegum í Evrópu og gnótt að sjá og upplifa alla jafna og enn fleira á þessum tímapunkti þegar borgin er komin í jólabúning og mögulega mjöll á götum. Engir eru Þjóðverjum fremri að skapa jólastemmningu. Þá er og stutt ferð til fjallaþorpsins Seiffen.

  • Kristinn Sigmunds í Berlín / Express ferðir / 16. til 19. desember / 87.900 krónur

Einn okkar allra fremsti óperusöngvari kyrjar Wagner af móð í þýsku Óperunni í Berlín og hér er sérdeilis velheppnuð ferð rétt til að ná andanum fyrir jólahátíðina. Berlín er sannarlega alltaf frábær til heimsóknar og í jólabúningnum rétt eins og aðrar þýskar borgir á þessum tíma.

  • Leyndarmál Egyptalands / Bændaferðir / 9. til 23. október / 381.400 krónur

Mikið er lagt í ferðir Bændaferða og þessi er engin undantekning. Hér má í einni og sömu ferðinni sjá margt af því helsta sem gerir Egyptaland spennandi og heimsfrægt. Kaíró, Lúxor og Alexandría allar skoðaðar auk stórkostlegra mannvirkja á borð við Hórusarhofið og Píramídana á Giza. Ekki er heldur amalegt að slaka á í ferju niður hina mögnuðu Níl.

  • Tveggja landa sýn / Trans Atlantic / 14. til 27. nóvember / 383.900 krónur

Hægt er að gera ýmislegt verra en eyða tíma í Mexíkó og Gvatemala næstkomandi nóvember en hér er skemmtileg ferð í boði þar sem bæði gefst færi til að sóla líkama og sál en ekki síður vitna forna menningu Maya í frumskógum þessara tveggja landa. Flott að flýja hingað um svipað leyti og Íslands forni fjandi fer að blása alvarlega að norðan.