Sú var tíðin um langt árabil að strandbærinn Fort Lauderdale á Flórída var áfangastaður númer eitt, tvö og þrjú hjá háskólanemum í páskafríi. Hann er ennþá vinsæll en bestu partíin fara þó fram í Panama City þessa dagana.

Hluti strandlengju Panama City Beach og fjörið rétt að hefjast. Mynd H.Engel
Hluti strandlengju Panama City Beach og fjörið rétt að hefjast. Mynd H.Engel

Spring Break er það kallað þegar háskólanemar vestanhafs fá langþráð páskafrí og sú hefð lengi verið við lýði að taka stefnuna rakleitt á næstu sólarströnd á Flórída þar sem djammað er út í eitt og helst eitthvað lengra en það.

Það vita allir sem prófað hafa á eigin skinni að sjaldan er partíið skemmtilegra en á heitum ströndum kringum tugþúsundir á tugþúsundir ofan með dúndrandi góðri músik þó raunin sé reyndar að áfengi og fíkniefni koma æ oftar við sögu hjá mörgum og hafi á köflum neikvæð áhrif eins og gengur.

En nýr staður hefur tekið titilinn af Fort Lauderdale sem helsti áfangastaðurinn. Það er Panama City Beach sem er töluvert mikið vestar á Flórídaskaga en strendur þar heitari og gott ef sandurinn er ekki hvítari líka. Þá þykir ekki miður að verðlag á gistingu er ekki alveg jafn hátt og í Fort Lauderdale eða öðrum vinsælum ströndum sunnar á Flórída.

Til marks um vinsældirnar ætti að nægja að geta þess að talið er að 250 þúsund ungmenni hafi eytt tíma á ströndum Panama City árið 2019. Þegar haft er í huga að íbúafjöldi þess utan er um tólf þúsund er auðvelt að ímynda sér hvernig bærinn breytist.