Það er afskaplega lítið varið í að koma endurnærð úr fríi erlendis til þess eins að fá nett áfall þegar næsti símreikningur skilar sér inn um lúguna. Um það eru allnokkur dæmi enda er fokdýrt að brúka farsímann erlendis.

Assgoti sniðugt að taka farsímann með sér á ströndina og blaðra út í eitt. Þó ekki nema bankabókin sé þykk

Ekki er mjög hlaupið að því að sjá í fljótu bragði hver kostnaðurinn er við að nota farsíma erlendis hjá Símanum hvort sem það er að ásettu ráði eður ei. Á vef Símans er sérstakur gluggi til að finna út mínútuverð á símtali annars vegar og gagnaniðurhali hins vegar en sá virkar alls ekki þegar þetta er skrifað.

Hjá Vodafone og Nova hins vegar eru uppgefin mínútuverð fyrir notkun á íslenskum farsíma erlendis. Þarf ekki einu sinni að hafa útskrifast úr stærðfræði 101 til að átta sig á að símadruslan er eiginlega best geymd heima. Þá segir sína sögu að símafyrirtækin öll vara fólk við mikilli símanotkun erlendis sem er líklega einsdæmi hjá innlendu fyrirtæki því bransinn gengur eðlilega út á að græða eins mikið og hægt er.

Með áskrift hjá Vodafone kostar ein einasta mínúta í símtal heim til Íslands frá Spáni rúmar 58 krónur en öllu lægra er að ansa símtali að heiman sem aðeins kostar rúmar 16 krónur. Dæli fólk niður 1 megabæti af efni af netinu í símann á Spáni kostar það tæpar 112 krónur. Örlítill rúntur á netinu hoppar því léttilega upp í þúsundir króna.

Hjá Nova er verðið svipað sé tekið mið af símtölum heim frá Spáni. Verð eru reyndar uppgefin í evrum en yfirfært miðað við miðgengi dagsins kostar mínútu símtal heim til Íslands 57 krónur. Tæpar sextán krónur kostar mínútan ef hringt er frá Íslandi í farsíma á Spáni. Ætli fólk að hala niður 1 megabæti kostar það 139 krónur á Nova

Ofangreindar upphæðir eru þó næsta hlægilegar vilji fólk taka upp tólið vestanhafs í Bandaríkjunum. Sé hringt heim þaðan úr farsíma greiðir viðkomandi 317 krónur á mínútuna hjá Nova og eitt einasta megabæt í niðurhal á þeim slóðum kostar notandann litlar 800 krónur.

Svipað er uppi á teningnum hjá Vodafone. Mínútuverð þar frá Bandaríkjunum og heim gegnum farsímann eru rúmar 323 krónur og sömuleiðis kostar niðurhalið sitt eða 2.461 krónu. Litla tíu mínútna fésbókartékkið getur því aldeilis kostað skildinginn.

Gera má ráð fyrir að Síminn sé á svipuðum slóðum og helstu samkeppnisaðilarnir hérlendis. Allavega er langur vegur í að öll þau kort, gögn og leiðbeiningar sem í boði eru í símann gegnum netið verði sannarlega nothæf. Ekki af því að þau nýtast ekki vel heldur vegna þess að kostnaðurinn er einfaldlega of mikill.