Ritstjórn Fararheill hefur um langt skeið undrast að þrátt fyrir mikla og hratt vaxandi samkeppni meðal flugleitarvéla, bílaleiguleitarvéla og hótelleitarvéla hefur lítið bólað á vef sem aðstoðar þá sem áhuga hafa að ferðast með lestum eða rútum um fjarlæg lönd.

Eitt óvæntasta spútnikfyrirtæki í Bandaríkjunu, Megabus, er farið að bjóða þjónustu í Evrópu líka.
Eitt óvæntasta spútnikfyrirtæki í Bandaríkjunum, Megabus, er farið að bjóða þjónustu í Evrópu líka.

Nú kann einhver að hlæja og segja að rútuferðir hljóti að vera á síðustu metrunum með tilkomu þeirra hundruða lággjaldarflugfélaga sem fljúga um heim allan fyrir ekki mikið hærra verð en tímafrekar rútuferðir kosta.

Brosið gæti þó minnkað eitthvað ef við segðum honum að vestanhafs sé meiri vöxtur hjá rútufyrirtækjum en lággjaldaflugfélögum og í Evrópu jókst umferð með lestum innan Evrópusambandsins um heil sextán prósent milli áranna 2013 og 2014.

Þeir kannast kannski við þetta sem hafa prófað að taka rútu milli Boston og New York síðustu misserin. Þar finnur fólk hefðbundnar hópferðabifreiðar Greyhound annars vegar og hins vegar nýleg fyrirtæki á borð við Megabus og Boltbus. Hvers vegna skyldu fjárfestar berjast á hæl og hnakka að kaupa hluti í þeim tveimur síðarnefndu? Vegna þess að það gengur frábærlega.

Burtséð frá því þá höfum við fundið nokkra vefi sem einmitt ætla sér stóra hluti þegar kemur að ferðalögum með rútum og eða lestum. Sem kemur sér vel fyrir flughrædda svo dæmi sé tekið.

Vestanhafs er óvitlaust að skoða vefi á borð við Bustripping eða Wanderu en báðir batna dag frá degi. Evrópumegin er óhætt að taka hattinn ofan fyrir fólkinu að baki FromAtoB og Roadrailandsea.

Þessir aðilar leita ekki aðeins að besta miðaverði heldur og finna leiðir og fyrirtæki sem erlendum ferðamönnum dytti vart í hug að skoða eða gætu vart fundið á eigin spýtur. Og þjónustan frí eins og bestu hlutirnir í lífinu 🙂